Lee Westwood
Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 27. 2012 | 10:00

Tekst Lee Westwood að heilla áhorfendur í titilvörn sinni á Thailand Golf Championship í næsta mánuði?

Tekst Lee Westewood að heilla áhorfendur upp úr skónum þegar hann hefur titilvörn sína á Thailand Golf Championship, móti á Asíutúrnum, nú í næsta mánuði – nánar titltekið 6.-9. desember n.k.?

Á síðasta ári var hann að daðra við skor upp á 59 í mótinu og eitt er víst að nr. 6 í heiminum myndi gjarnan þiggja svipuð skor á mótinu.

Lee var svo til búinn að tryggja sér sigur í mótinu í fyrra, þó hann hefði aðeins spilað 2 hringi í Amata Spring Country Club s.l. desember, með hringjum upp á 60 og 64 en þar jafnaði hann 20 undir par met Asíutúrsins á 36 holum og var með gríðarmikið forskot á næstu kylfinga eða 11 högg.

Lee Westwood lauk keppni með sigri og átti 7 högg á þann sem næstur kom, Charl Schwartzel, frá Suður-Afríku. Westwood sagði eftir mótið að þetta hefði verið besta golf ævi sinnar.

„Við skulum bara segja að ég væri meira en hamingjusamur ef ég gæti líkt eftir byrjun minni frá síðasta ári,“ sagði  Westwood við blaðafulltrúa Asíutúrsins, nú nýlega.

„Reyndar fannst mér ég spila betur á 2. hring en þegar skorið var upp á 60 í fyrsta hringnum. Ég held að skorið hafi verið  20 undir pari eftir fyrstu tvo hringina. Og að hvað varðar 59 högg …. maður veit aldrei hvað getur gerst.“

„Mér finnst fegurð vallarins felast í því að hann knýr mann til þess að nota allar kylfurnar í pokanum og maður verður að hugsa stöðugt. Á sumum brautum verður maður að dúndra drævunum, á öðrum er það staðsetningin sem gildir.

„Þetta er virkilega krefjandi völlur og vel rekið mót.“

„Það lítur alltaf meira út fyrir að golf muni eiga sterkar stöðvar í Asíu í framtíðinni.“