Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 29. 2012 | 16:00

Systkini á Eimskipsmótaröðinni

Golf er íþrótt sem heilu fjölskyldurnar geta stundað og stunda og því kemur ekki á óvart að fjölskyldumeðlimir hjálpa hver öðrum að þegar einn úr fjölskyldunni er að keppa í móti.  Það sama gildir að sjálfsögðu þegar keppt er á Eimskipsmótaröðinni.

Andri Þór Björnsson, klúbbmeistari GR 2011 spilaði á -3 undir pari á seinni degi Örninn Golfverslun 1. móts Eimskipsmótaraðarinnar, með Evu Karen systur sína á pokanum. Mynd: Golf 1

Hver er þessi 14 ára stelpa, sem prýðir forsíðumynd fréttarinnar kunna einhverjir að spyrja?  Jú, þetta er Eva Karen Björnsdóttir, GR, sem var kylfuberi bróður síns, klúbbmeistara GR, 2011, Andra Þórs Björnssonar, á 2. degi Örninn Golfverslun 1. mótinu á Eimskipsmótaröðinni, 27. maí 2012. Eva Karen dró deginum þar áður í rokinu fyrir vinkonu sína Ragnhildi Kristinsdóttur, GR, 14 ára, en Ragnhildur var næstyngsti þátttakandinn í mótinu, aðeins Óðinn Þór Ríkharðsson, GKG, er nokkrum mánuðum yngri og sá yngsti sem þátt tók.  Ragnhildur var hins vegar yngst af kvenkylfingunum 26, sem þátt tóku í mótinu.

Eva Karen Björnsdóttir, GR (t.v.) dró fyrir vinkonu sína, Ragnhildi Kristinsdóttur (t.h), GR fyrri keppnisdaginn á Örninn Golfverslun, 26. maí 2012 í rokinu. Mynd: Golf 1

En snúum okkur aftur að Evu Karen. Eva Karen sigraði helgina þar áður á 1. móti Unglingamótaraðar Arion banka upp á Akranesi í flokki 14 ára og yngri stelpna og því er hér á ferðinni ungur og upprennandi kylfingur! … sem er þar að auki dugleg að draga fyrir Andra Þór bróður sinn.

Andri Þór, lauk keppni í 6. sæti í karlaflokki og í 7. sæti yfir mótið í heild. Með Evu Karen á pokanum, spilaði hann Leiruna á -3 undir pari seinni keppnisdaginn og var einn þeirra 11, sem tókst að spila völlinn undir pari í mótinu. Glæsilegur árangur hjá Andra Þór, sem byrjar sumarið vel!

Axel Bóasson, GK, Íslandsmeistarinn í höggleik 2011 slær á 4. braut Leirunnar 2. keppnisdag Örninn Golfverslun 1. móts Eimskipsmótaraðarinnar 2012. Jódís systir hans tók líka þátt í mótinu. Mynd: Golf 1

Eins voru dæmi nú um helgina að systkini væru bæði að keppa t.a.m. voru bæði Axel og Jódís Bóasbörn úr GK að keppa og svo auðvitað Ólafía Þórunn, GR, sem vann kvennaflokkinn og var í 3. sæti yfir mótið í heild og bróðir hennar Alfreð Brynjar, klúbbmeistari GKG 2011.

Eflaust hafa fleiri fjölskyldumeðlimir dregið fyrir þátttakendur á Eimskipsmótaröðinni eða fleiri systkini bæði keppt – ekki er ætlunin að skrifa tæmandi grein, enda aðeins 1. sumarið sem Gofl1 fjallar um mótaröðina og eiga eflaust margar fleiri skemmtilegar fjölskyldusögur sem og aðrar að fylla síður vefsins! Sumarið er rétt að byrja….

Alfreð Brynjar, klúbbmeistari GKG 2011 og bróðir Ólafíu Þórunnar sigurvegara í kvennaflokki hér á 2. keppnisdegi Örninn Golfverslun, 27. maí 2012. Mynd: Golf 1