Ragnheiður Jónsdóttir | október. 4. 2013 | 10:00

Stricker við Spieth: „Jæja, hvenær ætlar þú að byrja að spila?“ – Myndskeið

Flestum ber saman um að nýliðinn í liði Bandaríkjanna, Jordan Spieth hafi náð að spila einstaklega vel með Steve Stricker…. á 1. hring Forsetabikarsins, en þeir nældu sér í sigurstig gegn Els/de Jonge í Alþjóðaliðinu.  Svo vel léku þeir Spieth/Stricker að þeir spila aftur saman í dag, enda frábær skemmtun að fylgjast með þeim.

Spieth og Stricker léku eins og segir á móti reynslumesta manni Alþjóðaliðsins Ernie Els og nýliðanum Brendon de Jonge.

Spieth byrjaði óvenjuilla miðað við þá gífurlegu golfhæfileika sem strákurinn hefur og hann sagði að eftir smátíma hafi Stricker komið upp til sín og spurt: „Jæja, hvenær ætlar þú að byrja að spila?“  Allt í góðu – en orðin virkuðu gífurlega hvetjandi á Spieth, sem spilaði eins og engill um miðbik viðureignarinar og átti hvern fuglinn á fætur öðrum eða alls 6.

Þegar Spieth byrjaði ekkert vel leitaði Stricker ráða á 5. teig hjá Davis Love III, hvað ætti hann að segja við Spieth? Hvernig gæti hann fengið hæfileikastrákinn frá Texas til þess að sýna sínar bestu hliðar?  Love III svaraði að hann myndi segja Spieth brandara til þess að fá hann til að slaka svolítið á. Það versta sem hægt væri að segja við hann myndi þó væntanlega vera að segja honum að slaka á.

Spieth sjálfur sagði eftir hringinn: „Hann (Stricker ) studdi mig og var hjálpsamur í að koma mér af stað. Ég náði pútti á 6. braut og síðan rúlluðum við þessu áfram.“  Þeir voru 2 yfir mestallan hringinn það sem eftir var.

En síðan leit ekki gæfulega út fyrir þeim félögum í bandaríska liðinu þegar Ernie Els fékk fugl á 17. holu og tveggja holu forskot Spieth/Stricker minnkaði í 1 holu auk þess sem Spieth sló upphafshögg sitt á 18. í vatn og Stricker „plöggaði“ boltann sinn í glompu.

En það er enginn annar eins og Stricker í stutta spilinu og hann átti frábært högg úr glompunni á 18. aðeins nokkra sentimetra frá holu og tryggði sigurinn gegn þeim Els og DeJonge, með parpútti sínu á par-4 18. holunni.

Eftir hringinn sagði brosandi Stricker m.a.: „Það var gott að koma þessum gæja þarna (Spieth)  út á völl og láta hann ná fyrsta vinningi sínum sem nýliða.“

Spieth sagði m.a.: „Maður vill ekki nokkurn annan en Steve Stricker þegar ná þarf upp bolta eins og í glompunni þarna, þannig að Guð, þvílíkur leikur. Það eru ótrúlegir straumar hérna, að heyra hvatningarsögva Bandaríkjamanna. (Ég) hlakka til á morgun (í dag)!“

Hér má sjá viðtal við þá Spieth og Stricker eftir að þeir luku við 1. hring sinn í fjórbolta gærdagsins SMELLIÐ HÉR: