Steve Stricker.
Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 6. 2012 | 14:00

Steve Stricker tilbúinn í slaginn á Hyundai Tournament of Champions

Steve Stricker lýsti því yfir rétt fyrir fyrsta mótið á keppnistímabili PGA, Hyundai Tournament of Champions að hann væri tilbúinn í slaginn eftir að hafa átt við hálsmeiðsli sem valdið hafa kraftleysi í vinstri handlegg.

Live Report Image

Stricker

Steve Stricker,  sem er nr. 6 á heimslistanum er sá kylfingur sem er efstur á listanum af þeim sem þátt taka í mótinu. Hann sagðist hafa fengið kortisón sprautu (2. sprautuna sem hann fær)  rétt fyrir jóladag. Hann hefir líka farið í 6 skipti í sérstaka meðferð í desember, sem m.a. fólst í nuddi og hann segir að nú líði sér „býsna vel.”

Jafnvel þó Stricker hefji ekki styrkleikaæfingar þangað til hann fer í 4 vikna frí eftir Sony Open, sem fram fer í næstu viku á Hawaii, þá segir hann að sér sýnist högglengd hans hafa aukist frá því fyrir ári síðan.

„Ef litið er á hvernig mér leið fyrir ári síðan samanborið við nú,” sagði Stricker, „þá er ég í miklu betra formi.”

Þar sem jólafríið var stutt þá sagði Stricker að þær 4 vikur sem hann ætli sér í frí eftir Sony Open verði kærkomið tækifæri til að slökkva á einbeitingu sinni á golfið í nokkrar vikur, en þær verði jafnframt notaðar til að undirbúa sig fyrir risamótin.

Stricker sem verður 45 ára í næsta mánuði er enn að vonast eftir að sigra á fyrsta risamóti sínu.

„En líkt og í öðrum störfum, jafnvel þegar tekið er stutt frí, þá er erfitt að fá frí frá vinnunni,” sagði Stricker. „Golfið er gott dæmi um það.”

„Við erum alltaf að reyna að upphugsað nýjar aðferðir til að verða betri eða bæta okkur, en það er í raun enginn tími til þess nema þegar maður gefur sjálfum sér 4-5 vikna tímabil þar sem hægt er að komast frá öllu og slaka á.”

Heimild: PGA Tour