Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 18. 2016 | 08:00

Sterkasta golfmót á íslenskri mótaröð fer fram á Grafarholtsvelli næstu helgi!!

Um helgina fer fram lokamótið í Eimskipsmótaröðinni, Securitasmótið þar sem keppt verður um GR bikarinn í fyrsta sinn. Ræst verður út af 1. teig frá kl. 09:00 – 12:00, föstudag, laugardag og sunnudag.

Mikil vinna fór fram síðastliðinn vetur af hálfu Golfsambands Íslands við endurskipulagningu Eimskipsmótaraðarinnar sem er mótaröð GSÍ. Ákveðið var að mótaröðinni skyldi verða skipt upp í framtíðinni og mundi skiptingin verða; tvö haustmót, tvö vormót og fjögur sumarmót. Þessi fjögur sumarmót samanstanda af KPMG bikarnum (Íslandsmótinu í holukeppni), Borgunarmótinu (Hvaleyrarbikarnum), Íslandsmóti í höggleik og Securitasmótinu (GR-bikarnum) sem haldið verður um helgina.

Ákveðið var að Golfklúbburinn Keilir myndi annast Hvaleyrarbikarinn og að lokamót mótaraðarinnar yrði haldið af Golfklúbbi Reykjavíkur og hefur mótið hlotið nafnið GR-bikarinn. Ef vel tekst til þá má reikna með því að þetta fyrirkomulag muni haldast um langa hríð.

Takmarkaður fjöldi þátttakenda
Aðeins 33 efstu karlar og 15 efstu konur á sigalista mótaraðarinnar eiga rétt til þátttöku í GR bikarnum. Þá hafa sigurvegarar á mótum síðustu tveggja ára keppnisrétt og efstu íslensku kylfingarnir á heimslistum áhugamanna og atvinnumanna. Golfklúbbur Reykjavíkur hefur síðan heimild til að bjóða sex leikmönnum af hvoru kyni í mótið.

Boðsgestir
Golfklúbbur Reykjavíkur ákvað að bjóða til leiks erlendum atvinnumönnum í golfi. Atvinnukylfingurinn og Íslandsmeistarinn frá því í fyrra, Þórður Rafn Gissurarson, hefur haft milligöngu um að bjóða fjórum leikmönnum, sem leika á mótaröðum Evrópu, til leiks og leika þeir aðallega á Pro Golf Tour en hafa einnig leikið á Challenge Tour og European Tour. Það er frábært fyrir íslensku kylfingana að fá að keppa við erlenda boðsgesti um GR-bikarinn og máta sig við þá í alvöru golfmóti á íslenskri grund.
Í kvennaflokki eru einnig góðir gestir en þar má helst telja fyrrum Íslandsmeistarana Ragnhildi Sigurðardóttur og Nínu Björk Geirsdóttur. Báðar eru klúbbmeistarar sinna klúbba 2016, Ragnhildur í GR og Nína í GM. Því má búast við að þessir meistarar séu í ágætu keppnisformi og muni sýna gamalkunna takta.

Sterkasta golfmót Íslandssögunnar
Þegar litið er til forgjafar leikmanna mótsins er ljóst að um er að ræða langsterkasta mót sem haldið hefur verið í mótaröð af hálfu Golfsambands Íslands. Alls eru hvorki fleiri né færri en 24 leikmenn í karlaflokki með forgjöf lægri en núll og er Birgir Leifur Hafþórsson forgjafarlægstur með -4,5. Hlutfall leikmanna sem eru lægri en núll eru því yfir 60%. Það er ljóst að mikil golfsýning er framundan um helgina sem enginn golfáhugamaður ætti að láta fram hjá sér fara.

Stigameistarar krýndir
Auk keppni um GR-bikarinn verður þetta lokamótið í baráttunni um stigameistaratitilinn. Með sama hætti og í keppni um Fedex bikarinn á PGA-tour verður stigununum endurraðað fyrir mótið sem gerir það að verkum að fimm efstu kylfingarnir á stigalistanum eiga raunhæfa möguleika á að verða stigameistarar Eimskipsmótaraðarinnar árið 2016. Verður án efa mjög spennandi að fylgjast með þeirri baráttu.

Verðlaunafé
Verðlaunafé í mótinu er hátt miðað við mót á Íslandi. Sigurvegar mótsins í karla og kvennaflokki hljóta 250.000 krónur í verðlaunafé, að því gefnu að um atvinnumenn sé að ræða. Þá hljóta stigameistarar 500.000 krónur í verðlaunafé með sama skilyrði. Áhugamenn sem sigra hljóta kr. 100.000 í verðlaunafé þar sem þeim er óheimilt að þiggja hærri verðlaun fyrir sigur í golfmóti. Mikill fjöldi atvinnumanna keppa í mótinu og því er ljóst að hart verður barist um sigurinn. Heildarverðlaunafé mótsins er tæplega 2.000.000 króna.

Áhorfendur
Vel verður tekið á móti áhorfendum og er Grafarholtsvöllur sérlega aðgengilegur til að fylgjast með meistaratöktum kylfinganna.
Það er mikill heiður fyrir Golfklúbb Reykjavíkur að halda GR-bikarinn. Hann býður keppendur hjartanlega velkomna til leiks og vonar að þeir muni eiga ánægjulega helgi. Við vonum að áhorfendur, jafnt og keppendur, muni skemmta sér vel á þeirri miklu golfsýningu sem í vændum er á hinum margslungna Grafarholtsvelli, sem er í mjög góðu ástandi þessa dagana.