Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 15. 2014 | 18:30

Stenson valinn íþróttakarl 2013 í Svíþjóð

Sænski nr. 3 á heimslistanum, Henrik Stenson, hefir bætt enn einum heiðurstitilinum í safn sitt, en s.l. mánudag var hann valinn íþróttamaður ársins í Svíþjóð á íþróttahátíð Svía.

Stenson var valinn íþróttakarl ársins og eins varð hann fyrsti karlíþróttamaðurinn til þess að hljóta „Radiosportens Jerringpris“ en það eru verðlaun veitt fyrir mesta íþróttaafrek ársins og er það sænskur almenningur sem velur þann íþróttamann í netkosningu.

Stenson, sem tekur þátt í móti vikunnar á Evróputúrnum, þ.e. Abu Dhabi HSBC Golf Championship, flaug sérstaklega til Svíþjóðar til þess að vera viðstaddur verðlaunaafhendinguna.

Eftir að Stenson tók við verðlaununum sagði hann m.a.: „Það var mikill heiður að vera tilnefndur en að fara héðan með bæði verðlaunin er stórkostlegt. Það er frábært að vera aftur í Stokkhólmi, þrátt fyrir að það sé aðeins stutt og að sjá allar hinar íþróttastjörnurnar og sjá hvað er að gerast hjá hinum.“

„Þetta er mikil viðurkenning fyrir golfíþróttina í Svíþjóð að vinna þessi tvö verðlaun og það sýnir þróunina innan íþróttarinnar. Ég er mjög þakklátur öllum golfáhangendunum sem kusu mig og að hljóta þennan heiður í eiginn heimalandi er mjög sérstakt.“

Robert Karlsson er sá eini auk Stenson sem hlotið hefir heiðurstitilinn íþróttakarl ársins eftir að hann varð fyrsti sænski kylfingurinn til þess að verða nr. 1 á Evróputúrnum 2008, meðan að Annika Sörenstam hefir áður hlotið Radiosportens Jerringpris árin 1995 and 2003 en þau eru einu kylfingarnir, sem hlotið hafa þessar viðurkenningar. Henrik Stenson er sá fyrsti sem hlýtur bæði titilinn íþróttakarl ársins og Jerringpris samtímis.