Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 30. 2014 | 16:30

Stenson hreinsaður af golfreglubrotarásökun Björn

Nýtt mót og ný meint reglubrot.

Tilvikið sem hér um ræðir var aðhögg Henrik Stenson á par-4 14. holunni, sem fór í vatnshindrun. Eftir að hafa ráðfært sig við dómara ákvað Stenson að droppa boltanum 40 yarda fyrir aftan, en hélt þó alltaf línunni þar sem boltinn fór í hindrunina milli sín og holunnar, sbr. reglu 26-1-b.

Thomas Björn, sem var í ráshóp með Stenson dró í efa að dropp Stenson væri í samræmi við golfreglur og hafði orð á því við dómara en sagði ekkert við Stenson.

„Ég átti ekki mikið högg á bakvið trén þannig að ég fór aðeins aftar og átti yndislegt högg með 6-járninu,“ sagði Stenson, sem fékk skolla á holuna og lauk hringnum á 2 undir pari, 70 höggum. Thomas Björn spilaði 1. hring á sléttu pari, 72 höggum.

Þegar hópurinn hafði lokið hring sínum keyrði John Paramor, yfirdómari á Evróputúrnum að 14. holu til þess að kanna aðstæður og dæmdi að droppið hefði verið löglegt.

Björn hélt hins vegar áfram að hafa áhyggjur af droppinu og átti langt samtal við Paramor og Stenson á æfingaflötinni.  Björn neitaði að gefa yfirlýsingu eftir samtalið sagði aðeins, „þetta er allt í lagi. John (Paramor) segir að þetta hafi verið í lagi.“

„Þetta var eitt af þeim tilvikum þar sem Thomas (Björn) leit á droppið frá öðru sjónarhorni og það virtist ekki vera í lagi,“ sagði Paramor. „Þeir vilja bara vera vissir um að þeir taki vítin rétt,“ sagði hann loks um Stenson, sem kallaði á dómara áður en hann tók droppið.