Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 30. 2013 | 07:15

Stelpurnar yfirtaka St. Andrews

Konum er bannað að gerast félagar í The Royal & Ancient golfklúbbnum í St. Andrews, Skotlandi, vöggu golfíþróttarinnar.

Hins vegar fá konur að spila velli St. Andrews og af og til eru stórmót golfíþróttarinnar haldin þar.

Svo er einmitt nú, en á fimmtudaginn 1. ágúst n.k. hefst þar 4. risamót ársins í kvennagolfinu: Ricoh Women´s British Open.

Nokkrar af bestu kvenkylfingum heims létu taka mynd af sér í gær á hinni frægu Swilken brú í St. Andrews.

Þar fremst í flokki var nr. 1 á Rolex-heimslista kvenkylfinga; Inbee Park, sem á færi á að ná fyrst bæði karla og kvenna að vinna 4. risamótið í röð á sama árinu.  Hún er fremst á meðfylgjandi mynd í rauðum golfbuxum.

Takist það ekki á hún enn færi á að sigra í Evian Masters í Haute-Savoie, í  Evian-les-Bains, Frakklandi, en mótið er 5. risamót kvennagolfsins – en þá verða það ekki 4 mót í röð á sama árinu!