Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 9. 2020 | 15:00

Stelpur í golfi með Ólafíu Þórunni, KPMG og GSÍ

KPMG mun í samstarfi við GSÍ og Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur vinna að því að efla þátttöku stúlkna og kvenna í golfi og leggja sitt að mörkum í að gera fyrirmyndir ungra stúlkna sýnilegri með átakinu Stelpur í golf. Verkefnið er í tengslum við samninga KPMG við GSÍ og Ólafíu Þórunni.

Miðvikudagsmorguninn 10. júní mun KPMG halda níu holu golfmót á Setbergsvelli þar sem um 30 ungar stúlkur fá tækifæri til að hitta suma af bestu kylfingum landsins og læra af þeim. Alls munu níu íslenskir atvinnu- og afrekskylfingar leiðbeina um stúlkunum. Í kjölfarið verður efnt til níu liða keppni með Texas scramble fyrirkomulagi þar sem hvert lið verður skipað atvinnu- eða afrekskylfingi og þremur ungum og efnilegum stúlkum. Síðar í sumar mun Ólafía Þórunn halda sérstakt námskeið sem ætlað verður ungum stúlkum.

Dagskrá miðvikudaginn 10. júní:

10:30 Ræst út af öllum teigum

12:00 Fjölmiðlum er boðið að taka myndir og myndbönd úti á velli.

13:00 Mótinu lýkur. Blaðamannafundur hefst í framhaldinu. Farið verður yfir verkefnið „Stelpur í golf“ og hægt að ræða við þátttakendur og atvinnu- og afrekskylfingana.

KPMG endurnýjar samninga sína við GSÍ og Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur

Golfsamband Íslands og KPMG ehf. hafa endurnýjað samstarfssamning sinn til næstu þriggja ára. KPMG ehf. hefur um árabil stutt vel við golfíþróttina með samstarfi við GSÍ en einnig með beinum stuðningi við fjölmarga golfklúbba nærri skrifstofum KPMG um land allt.

Á sama tíma og KPMG endurnýjar samning sinn við GSÍ hefur KPMG framlengt samning sinn við atvinnukylfinginn Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur sem hefur verið merkisberi KPMG síðastliðin 3 ár. Á tímum sem þessum er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að styðja vel við afreksíþróttamenn þjóðarinnar sem leggja hart að sér við stunda íþrótt sína og vera á sama tíma mikilvægar fyrirmyndir þeirra sem á eftir koma. Vegna COVID hefur samningur Ólafíu Þórunnar verið aðlagaður að breyttum aðstæðum, því annars hefði henni verið ómögulegt að efna samninginn með þátttöku á mótum erlendis. Þá eru í samningnum ákvæði eins og í öðrum styrktarsamningum KPMG Int. að greiðslur samkvæmt samningnum eru í fullu gildi þó kylfingurinn fari í barnsburðarleyfi.

Carbon Par

Auk framangreindra samninga undirritaði KPMG nýverið styrktarsamning um verkefnið Carbon Par sem er hugarfóstur Edwins Roalds golfvallahönnuðar um umhverfismál tengd golfvöllum.

KPMG hefur ávallt stutt golfíþróttina nokkuð myndarlega. Í dag eru alls sjö atvinnukylfingar á samningum hjá KPMG og eru þeirra frægust, Stacy Lewis og Phil Mickelson. Lesa má nánar um þessa kylfinga, þ.m.t. Ólafíu Þórunni á vefsíðunni https://golf.kpmg.us/. Hjá KPMG á Íslandi starfa nú um 260 manns og þarf er eru 60 starfsmenn í Golfklúbbi KPMG.