Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 7. 2013 | 08:00

Stærsta golfinnanhúsaðstaða í Moskvu

Stærsta innanhúsgolfaðstaða í Rússlandi opnaði í Krasny Oktyabr menningahúsinu í Moskvu í októberlok s.l.

Nýja innanhús golfæfingasvæðið hefir hlotið nafnið City Golf og nær yfir 700 fermetra svæði, en á því eru m.a. 10 golfhermar, 50 fermetra púttsvæði, pro shop og Troon Golf golfkennsla jafnt fyrir börn sem fullorðna.

Krasny Oktyabr, er lítil eyja í miðri Moskvu á móti Kreml og þar var áður til húsa súkkulaðiverksmiðja, sem nú hefir orðið að víkja fyrir golfíþróttinni, sem er í mikilli sókn í Moskvu.

Opið er í nýju aðstöðunni frá 8 á morgnum til miðnættis. Svona golfinnanhúsaðstöður til æfinga á vetrum eru grundvallaratriði í að árangur náist og þær vantar sárlega hér á höfuðborgarsvæðinu á Íslandi.

Til marks um góða aðstöðu er hins vegar á Dalvík, en ungu kylfingarnir þaðan s.s. Arnór Snær og Ólöf María æfðu ekki utandyra allan s.l. vetur, en komu engu að síður fersk til leiks s.l. vor þar sem þau urðu m.a. Íslandsmeistarar í höggleik- og holukeppni í sínum aldursflokki. Lykilatriði í þessu góða formi er auðvitað ástundun þeirra sjálfra og góðir þjálfarar þar sem Árni Jónsson og Heiðar Davíð eru, en einnig það að Dalvíkurbær fær Golfklúbbnum Hamar á Dalvík íþróttahúsið til afnota á veturna, svo hægt sé að æfa golf innandyra.

Það mættu fleiri bæjarfélög hér á landi taka sér Dalvík til fyrirmyndar, því ekki víst að fé sé til þess að byggja jafnglæsilega golfinnanhúsaðstöðu og í Moskvu og eflaust ekki langt að bíða að feykisterkir kylfingar komi þaðan, sérstaklega nú þegar golf er orðin Ólympíuíþrótt!!!

Sjá má ágætis grein Golf Magic um nýju innanhúsaðstöðuna  í Moskvu með því að SMELLA HÉR: