Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 16. 2012 | 08:00

Staðan 4 1/2 -3 1/2 Evrópu í vil á Royal Trophy

Staðan er 4 1/2 -3 1/2 í Royal Trophy Evrópu í vil eftir fjórboltaleiki laugardagsins, en lið Asíu er heldur betur í sókn.

Lið Evrópu er nú aðeins með 1 vinnings forskot fyrir 8  tvímenningsleiki dagsins í dag, sem spilaðir verða í  Empire Country Club í Brunei .

Lið Evrópu, undir forystu Jose Maria Olazabal þarfnast 4 vinninga til þess að tryggja sér sigurinn, þ.e. helmingur leikjanna í dag þarf að vinnast, en til þess að lið Asíu sigri þurfa þeir að sigra í 5 leikjum af 8.

Lið Asíu hefir aðeins 1 sinni unnið Royal Trophy þ.e. árið 2009 en lið Evrópu 4 sinnum.

Afmælisbarn gærdagsins Jeev Milkha Singh og Kiradech Aphibarnrat frá Thailandi héldu jöfnu í leik sínum gegn Olazabal og Miguel Angel Jimenez í fyrsta leik gærdagsins.

„Það var gaman að heyra áhorfendur syngja „Hann á afmæli í dag…“ sagði Jeev m.a. í sjónvarpsviðtali eftir leikinn.

Kim Kyung-tae  frá Suður-Kóreu og landi hans Yang Yong-eun unnu 2&1 sigur á Spánverjanum  Gonzalo Fernandez-Castaño og Svíanum Henrik Stenson.

Kínverjinn Wu Ashun og Bae Sang-Moon frá Suður-Kóreu héldu jöfnu gegn þeim Marcel Siem frá Þýskalandi og Belganum Nicolas Colsaerts. „Liðið veit að við verðum að spila okkar besta golf, en við höfum (í dag) gefið sjálfum okkur tækifæri,“ sagði Wu m.a. þegar úrslit dagsins lágu ljós fyrir í gær.

Japanarnir Ryo Ishikawa og  Yoshinori Fujimoto innsigluðu síðan yfirburði liðs Asíu þennan laugardag þegar þeir unnu 3&1 sigur á ítölsku bræðrunum Edoardo og Francesco Molinari og héldu sigurvonum liðs Asíu opnum.

Yoshinori og Ryo Ishikawa.

Það verður reglulega spennandi að sjá hvort liðanna lið Evrópu eða Asíu hefir betur í dag eftir tvímenningsleikina!