Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 13. 2014 | 19:00

Spieth hrifinn af íþróttamannslegri framkomu Kaymer

Íþróttamannsleg framkoma Martin Kaymer var öllum ljós bæði þeim sem á horfðu í sjónvarpi en nú hefir helsti keppinautur Kaymer á The Players, Jordan Spieth, lýst hrifningu sinni á framkomu þýska kylfingsins.

Heimamenn í Flórída gerðust heldur háværir og hvöttu Spieth óspart áfram og fögnuðu hverju því sem misfórst hjá Kaymer, sem e.t.v. er bara smá upphitun fyrir því sem koma skal á Ryder Cup í Gleneagles.

Eftir því sem leið á hringinn varð Spieth sífellt ergilegri út í sjálfan sig og þegar hann missti 1 metra pútt eitt sinn kom Kaymer til hjálpar, sem hann hefði alls ekki þurft að gera.

Spieth sagði að Kaymer hefði komið til sín og sagt: „Ekki hafa áhyggjur af þessu, Jordan.  Skemmtu þér. Eftir allt, ertu þar sem þú vilt vera.“  Hinn 20 ára Spieth sagði að sér hefði fundist þetta virkilega svalt af Kaymer að segja þetta.

Spieth sagði líka að hann hefði verið hrifinn af því hvernig Kaymer tókst á við áhorfendur eftir að hann missti par púttið á síðustu holu á laugardeginum.

„Hann höndlaði þetta af svo miklum þokka, hann bara tók af derið og brosti,“ sagði Spieth.

Vonandi fáum við að sjá meira af svona íþróttamennsku í september á Gleneagles, fremur en ógeðfelld atvik sem oft koma upp þegar stuðningur áhorfenda gengur út í öfgar.

Þetta var fyrsti sigur Kaymer í yfir 2 ár og hann sagði að leik loknum að sér fyndist hann hafa bætt við öðrum risatitli við risatitil sinn á PGA Championship 2010.