Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 4. 2013 | 08:45

Sörenstam um Wie:„Hæfileikalaus!“

Í dag hefst 1. risamót 2013 keppnistímabilsins hjá konunum: Kraft Nabisco Championship. Þegar spólað er 10 ár aftur í  tímann var helsta fréttin af 2003 Kraft Nabisco mótinu að Michelle Wie, þá 13 ára, komst í gegnum niðurskurð á risamóti, sú yngsta í sögu LPGA. Síðan sumarið 2003 sigraði Wie á Women´s Amateur Public Links Championship og aðeins nokkrum mánuðum síðar var hún með hring upp á 68 á Sony Open á karlamótaröðinni PGA.

Hvað er orðið um Wie 10 árum síðar?  Leikur hennar hefir beðið hnekki vegna æfingaleysis en Wie kaus að ganga menntaveginn og er með gráðu frá einum virtasta háskóla í Bandaríkjunum, Stanford háskóla í Kaliforníu, þeim sama og Tiger Woods nam við.

Í viðtali við Anniku Sörenstam, sem birtast mun í maí hefti Golf Magazine er Sörenstam óvægin í garð Michelle Wie. Meðal þess sem hún segir er eftirfarandi:

„Við sjáum nú að hæfileikarnir sem við öll héldum að hún hefði eru ekki til staðar.“ Síðan gagnrýnir Sörenstam, Wie fyrir að hafa leikið með körlum (sem hún gerði nú reyndar sjálf) og segir það hafa skemmt feril Wie.

„Ég held ekki að það hafi hjálpað ferli hennar,“ sagði Sörenstam um þau 12 skipti, sem Wie spilaði á mismunandi karlamótum. Ég held að við sjáum afleiðingarnar af því í dag. Ég held að hún hafi reitt of hátt til höggs og ég held að  það hafi haft slæmar afleiðingar fyrir hana.“

Aðspurð hvort Sörenstam héldi að Wie gæti enn orðið nr. 1 í heimi, því hún er jú enn ung (aðeins 23 ára!) svaraði Sörenstam: „Segjum bara að hún eigi langt í land með það. Það voru tímar þegar LPGA virkilega þarfnaðist hennar. Ég hélt að hún hefði margt til brunns að bera. Nú er hún bara ein af mörgum.“

Árið 2012 (lokaárið sitt í Stanford) náði Wie aðeins niðurskurði í 13 mótum af 23 mótum sem hún tók þátt í, í því sem hún nefndi „líklega versta árið sem ég hef átt á öllum ferli mínum.“ Í 5 mótum sem hún hefir tekið þátt það sem af er árs, 2013, hefir hún aðeins komist tvisvar í gegnum niðurskurð og ekki náð betri árangri en að vera jöfn öðrum í 45. sæti.

En kannski að það breytist á Kraft Nabisco nú um helgina. Hver veit?  Hún er í holli með hinni ungu Lydiu Ko frá Nýja-Sjálandi, en Ko er mikill aðdáandi Wie og það hefir farið vel á með þeim!

Mörgum finnst óþarfi og lúalegt af jafn mikilli goðsögn og Anniku að vega að Wie, þegar hún er í öldudal á ferli sínum, nokkuð sem allir, jafnvel besti kylfingur heims (Tiger Woods) ganga í gegnum.  Sumir spyrja af hverju Sörenstam láti svona og  telja sig finna svarið í að Sörenstam sé enn fúl vegna þess að Wie mætti eitt sinn ekki í boðsmót sem Annika stóð fyrir.

SJÁ MÁ VIÐTAL GOLF MAGAZINE VIÐ ANNIKU SÖRENSTAM MEÐ ÞVÍ AÐ SMELLA HÉR 

 Heimild: Golf.com