Justin Harding
Ragnheiður Jónsdóttir | september. 29. 2011 | 12:00

Sólskinstúrinn: Justin Harding og Merrick Bremner efstir eftir 1. dag Platinum Classic

Það er Suður-Afríkubúinn Justin Harding sem er efstur eftir 1. dag á Platinum Classic mótinu sem hófst í dag í MooiNooi Golf Club (North West). Mótið stendur frá 29. september – 1. október.

Justin kom í hús á 64 höggum og er því -8 undir pari eftir 1. dag. Sérlega glæsilegt var spil hans á síðustu holum dagsins þeirri 17. og 18. Hann fékk fugl á 18. og á  par-5, 17. brautinni fékk Justin örn. Um örninn sinn sagði Justin: „Ég tók dræver og 7-járn þegar ég sló fyrir erninum og í 3. höggi mínu lenti boltinn 5 metra frá flaggi og rúllaði í holuna.  Þetta var lengsta púttið mitt í dag.”

„Ég hef ekki spilað völlinn fyrr en í þessari viku. Ég spilaði á þriðjudag (þ.e. í fyrradag) og svo í pro-am mótinu í gær.”

„Flatirnar eru mjög góðar. Boltinn rúllar á þægilegum hraða og brautirnar eru sannar, sem er gott. Það er samt svolítið erfitt að lesa þær.  Það voru nokkur pútt þarna úti, sem ég var hissa á,” bætti hann við.

Merick Bremner

Seinna á deginum þegar leit út að ekki væri hægt að jafna frábært skor Justins var komið að Merick Bremer að sanna hið gagnstæða.  Hann kom, líkt og Justin í hús á 64 höggum og fékk frábæran örn á par-5 17. brautinni og deilir því forystunni með Justin.

Jaco Ahlers tókst jafnframt að skjótast í 3. sætið, einnig með örn á 17. braut eins og Justin og Merick. Jaco Ahlers er aðeins höggi á eftir forystunni á -7 undir pari, kom inn á 65 höggum.

Fjórða sætinu deila síðan  5 kylfingar, sem allir komu í hús á 66 höggum, eru þ.a.l. -6 undir pari: Brandon Pieters, Warren Abery, Vaughn Groenewald, Darren Fichardt og Charl Coetzee.

En hver er svo kylfingurinn Justin Harding, sem vermir 1. sætið eftir 1. dag Platinum Classic í stuttu máli?

Justin heitir fullu nafni Justin Adam Harding og fæddist 9. febrúar 1986 í  Höfðaborg í S-Afríku. Hann er því 25 ára. Justin er sonur Stafford og Carol Harding.  Hann var í Paul Roos menntaskólanum í Höfðaborg og spilaði þegar í menntaskóla golf. Á þeim árum vann hann m.a. Western Province höggleikinn; Cape Province Open Northwest höggleikinn og var hluti af Sourthern Cross liðinu.

Justin er félagi í Stellenbosch golfklúbbnum fræga í Suður-Afríku, sem mörgum Íslendingnum er að góðu kunnur. Sjá heimasíðu klúbbsins HÉR:

Justin var í Lamar háskóla, í Beaumont, Texas í Bandaríkjunum og spilaði með golfliði háskólans: Lamar Cardinals. Hann útskrifaðist síðan fyrir 3 árum með gráðu í viðskiptafræði.  Til þess að sjá afrekaskrá Justins í bandaríska háskólagolfinu smellið HÉR: 

Eftir útskrift hefir Justin aðallega spilað í heimalandinu, á Sólskinstúrnum.

Það verður fjör þá 3 keppnisdaga sem Platinum Classic mótið stendur yfir enda skor keppenda hnífjafnt og allt opið enn.

Til þess að skoða úrslit á Platinum Classic mótinu smellið HÉR: