Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 17. 2013 | 20:30

Solheim Cup: Staðan 6.5 – 5.5 fyrir Evrópu eftir morgunleiki 2. dags

Bandarísku stúlkurnar eru búnar að saxa á forskot liðs Evrópu eftir fjórmenning laugardagsmorgunsins (þ.e. í morgun 17/8 2013).

Brittany Lang og Michelle Wie unnu Suzann Pettersen og Beatriz Recari 2&1, en þetta er fyrsti ósigur Pettersen í þessari Solheim bikars keppni.

Nr. 2 á Rolex-heimslistanum, Stacy Lewis og „bleiki pardusinn“ Paula Creamer unnu leik sinn gegn Azahara Muñoz og Karine Icher mjög tæpt 1&0.

Allt var jafnt í leik Brittany Lincicome og Lizette Salas g. Catrionu Matthew og Caroline Masson.

Loks var eini leikur Evrópu sem vannst leikur Önnu Nordqvist og Caroline Hedwall g. Morgan Pressel og Jessicu Korda. Íslandsvinurinn Hedwall er því með fullt hús stiga í þessari keppni fyrir Evrópu  – einstaklega verðmæt liði sínu, því hún hefir sigrað alla 3 leiki sína!