Ragnheiður Jónsdóttir | september. 16. 2019 | 07:00

Solheim Cup 2019: Brontë Law

Brontë Law er 24 ára nýliði í Solheim Cup.

Og án stigsins sem hún vann fyrir lið sitt, hefði pútt Suzann Pettersen á 18. ekki skipt neinu.

Hún var nýliði; óskrifað blað, en naut samt fulls trausts Catrionu Matthew, fyrirliða og Brontë sýndi henni að hún var svo sannarlega traustsins verð.

Auðvitað má segja að öll stig hafi skipt máli og engu hafi mátt skeika í leik liðs Evrópu, en í raun voru það næstsíðustu tveir leikir mótsins, sem réðu öllu: Leikur Suzann við Marinu Alex og síðan leikur Brontë, við mun reynslumeiri kylfing, Ally McDonald í bandaríska liðinu. Reynslan skiptir gríðarlega miklu máli og kannski oft meira í Solheim Cup, en er þó ekki allt; Brontë er t.a.m. í 26. sæti Rolex-heimslistans meðan Ally er í 51. sætinu.

Síðasti leikurinn var ráðinn nokkuð snemma; því Anna Nordqvist (í liði Evrópu) sýndi Morgan Pressel (í liði Bandaríkjanna) snemma að hún ætlaði sér sigur í leik þeirra, enda var sigur hennar nokkuð öruggur 4&3 og leikurinn búinn áður en leikjum Suzann og Brontë lauk.

Lengi vel leit út fyrir að leikur Brontë við Ally McDonald myndi tapast, en Brontë sneri þessu við á lokametrunum.

Manni leið betur með Suzann, hún var 1 yfir mest allan tímann, síðan kom svartur kafli þegar Marinu tókst að jafna við hana.

Á hinn bóginn kviknaði vonarneisti, þegar Brontë tókst loks að jafna við Ally McDonald, seint og síðar meir, að jafnt yrði með liðunum.

Síðan gerðist það ótrúlega, Ally glutraði niður stuttu pútti á 17. …. sem hefði haldið henni og bandaríska liðinu á lífi og nýliðinn í liði Evrópu Brontë Law vann leik sinn 2&1…. og þá var aðeins 1 leikur eftir og staðan jöfn 13 1/2 – 13 1/2.

Spennan í hámarki – eftirleikinn þekkja allir sem fylgdust með – Suzann setti niður sigurpútt!!

Lokastaðan 14 1/2 – 13 1/2 fyrir lið Evrópu.

Suzann er reynslubolti en Brontë var sú, sem virkilega sýndi karakter á lokametrunum.

Hver er þessi nær óþekkta Brontë Law kunna sumir að spyrja?

Brontë Law

Brontë May Law fæddist 12. mars 1995 í Stockport í Englandi.

Hún var í Cheadle Hulme School og lék síðan í bandaríska háskólagolfinu með liði University of California, Los Angeles (UCLA).

Law var í liði Breta&Íra árin 2012, 2014 og 2016 í Curtis Cup og hefir því nokkra reynslu í liðakeppnum. Árið 2016 var hún aðeins 2. kylfingurinn og sá fyrsti úr liði Breta&Íra til að ná fullkomnu skori 5–0  í Curtis Cup. Þetta ár, 2016, sigraði hún líka í European Ladies Amateur Championship og var um tíma nr. 2 á heimslista áhugamanna.

Helstu sigrar Law sem áhugakylfings voru eftirfarandi:

2013 Nanea PAC 12 Preview
2014 Stanford Intercollegiate, English Women’s Amateur Championship
2015 Northrop Grumman Regional Challenge, English Women’s Amateur Championship, Stanford Intercollegiate
2016 PING ASU Invitational, NCAA Bryan Regional, European Ladies Amateur Championship, Stanford Intercollegiate

Brontë Law gerðist atvinnumaður í golfi seint á árinu 2016. Hún tók þátt í úrtökumóti fyrir LPGA og ávann sér spilarétt á Symetra mótaröðinni og spilarétt að hluta á LPGA árið 2017.

Snemma í maí á þessu ári 2019 tapaði Brontë fyrir Kim Sei-young í bráðabana á LPGA Mediheal Championship, en það var fyrsti raunhæfi möguleikinn, sem hún átti á sigri á LPGA. Þremur vikum síðar sigraði hún á Pure Silk Championship og hefir því nú þegar sigrað einu sinni á LPGA.

Law lék fyrstu 3 leiki mótsins með hinni reyndari Ciganda. Það féll á jöfnu í fyrstu tveimur leikjunum en síðan töpuðu þær stöllur stórt gegn sterkum Korda-systrum. Svo sigraði Law glæsilega í tvímenningnum … eins og spilafélagi hennar Ciganda gerði líka!

Hún stóð síðan undir öllum væntingum í þessu nýafstaðna Solheim Cup móti, þar sem hún, nýliðinn, halaði inn mikilvægu stigi fyrir lið sitt í tvímenningnum á sunnudeginum. Hún reis undir pressunni í lokin. Árangur hennar í Solheim 1-2-1. Glæsileg!!! … og það verður gaman að fylgjast með Brontë í framtíðinni.

Í lokinn má sjá hápunktana í leik nýliðanna á Solheim 2019, Brontë og Ally með því að SMELLA HÉR: