Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 20. 2016 | 15:15

Skyldu vera golfvellir á Tortola?

Sagan er alltaf að endurtaka sig. Hér má lesa grein ritstjóra Golf1, sem birtist fyrir rúmum 6 árum, nánar tiltekið 27. janúar 2010 á iGolf fréttavefnum og var mest lesna greinin þann daginn (þrefalt meira lesin, en aðrar greinar sem birtust þann dag á iGolf 🙂

Nú þegar Tortola, útrásarvíkingar, aflandssjóðir og afsögn forsætisráðherra eru aftur í umræðunni og hæstvirtur forseti Íslands, sem þekktur var fyrir að halda öllum helstu víkingunum boð og fljúga í einkaþotum þeirra er „hættur við að hætta“ og þykist bjarvættur Íslands,  er vert að rifja þessa óhefðbundnu „golfgrein“ upp:

Sumir telja hálfan þjóðarauð Íslendinga að finna í Karabíahafi, nánar tiltekið á eyjunni Tortola, sem er stærst af bresku Jómfrúareyjum. Eyjan hefir lengi verið afdrep glæpamanna, en jafnvafasamir karakterar og Svartskeggur sjóræningi og kapteinn Kidd, héldu þar til ásamt ránsfeng sínum.

Sumir telja að réttast væri að senda útrásarvíkingana, sem settu þjóðarbúið á hliðina í útlegð, rétt eins og forfeður okkar gerðu við afbrotamenn á sínum tíma og kyrrsetja þá á Tortola. Þaðan fengju þeir ekki að fara fyrr en þeir endurgreiddu þjóðinni því, sem þeir komust undan með.

Til refsingar, a.m.k. í augum kylfinga, myndi nefnilega telja að það eru engir golfvellir á Tortola; eyjan er nefnilega hæðótt klettasker með lítið land aflögu undir golfvelli.

Hugsa sér að vera kyrrsettur með hálfan þjóðarauðinn, á klettaskeri í Karabíahafi og geta ekki spilað golf!  Þá er nú himnaríki að geta tekið þátt í vorgolfmótaröð-inni í Sandgerði á sunnudögum!!!

Það sem væri enn meira pirrandi væri að vita af glæsigolfvöllunum, sem eru á eyjum allt í kringum Tortola, t.d. Mahogany Run golfvellinum á St. Thomas-eyju, sem nýlega hefur verið endurnýjaður þ.e. bætt var við stóru klúbbhúsi, veitingasal og golfverslun, en fallegt útsýni er af eyjunni yfir á Tortola og hinar bresku Jómfrúareyjarnar.

Eins eru margir góðir golfvellir í Puerto Rico (PR), en frá Tortola er einungis stutt “eyjahopps-flug” yfir til PR. Fyrstan golfvalla á PR ber að nefna Bahia Beach Platation, sem er 18 holu almenningsgolfvöllur byggður á gamalli kókoshnetu- plantekru. Loks væri mjög erfitt að vita af Dorado Del Mar golfvellinum, sem Chi Chi Rodriguez hannaði og linksaranum á El Conquistador á PR, án þess að gera spilað þá.“

Já til Tortola með þá alla!!!

Greinarhöfundur: Ragnheiður Jónsdóttir