Skata
Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 23. 2020 | 18:00

Skötuveislur með fjarfundasniði

Nú á tímum Covid-19 eru ekki bara verið að setja allskonar hömlur á golfspil, heldur eru samkomur manna, sem telja fleiri en 9 bannaðar.

Það er slæmt því einkum á þessum degi, degi heilags Þorláks, gera menn sér oftar en ekki glaðan dag og koma saman og snæða skötu.

Golfklúbbar hafa verið einkar iðnir að halda skötuveislur og hér sunnanlands einkum Golfklúbburinn Keilir og Golfklúbbur Sandgerðis.

Hvers vegna er haldið í þennan sið skötuáts?

Jú, hér áður fyrr að kaþólskum sið átti að fasta fyrir jól, því sem mestur munur átti að vera á föstumat og jólakræsingum. Hinn 23. desember er dánardægur heilags Þorláks, verndardýrlings Íslands og því síst á þeim degi, sem menn máttu gæða sér á góðgæti. Aðalreglan var að borða lélegt fiskmeti á þessum degi. Skata veiddist einkum fyrir vestan og því var til siðs þar að borða skötu.  Það er aldargamall siður að borða skötu á Vestfjörðum, sem barst síðan um síðir suður með aðfluttum Vestfirðingum og skötuát ekki nema nokkra áratuga siður hér á Höfuðborgarsvæðinu.

Sumir eru glaðir að sökum Covid losnum við þessi jól við skötulyktina – öðrum finnst hún ómissandi merki um innreið jólanna og koma til með að sakna hennar þessi jól.

Því miður verða skötuveislur ekki nema í skötulíki þessi jól og allt eins víst að þeir alhörðust snæði skötuna sína eða skötustöppu bara í fjarfundarveislum og geti bara notið lyktarinnar „einn og átta“!