Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 27. 2012 | 11:00

Skorað á Ginni Rometty og IBM að hætta stuðningi við the Masters og Augusta National

IBM er eitt virtasta fyrirtæki í hátækni-iðnaðinum. Það var stofnað fyrir meira en 100 árum og í desember 2011 var það 3. stærsta fyrirtækið í hátækni.  Það hefir meira en 400.000 starfsmenn á heimsvísu í 170 þjóðlöndum, fyrirtækið starfrækir 10 rannsóknarstofur og hefir á ferilskránni uppgötvanir eins og ATM (þ.e.a.s hraðbanka), harða diskdrifið og floppy diskana í tölvugeiranum.

Saga fyrirtækisins er saga afreka og sagan sem skrifuð hefir verið að forsvarsmönnum fyrirtækisins að því er snertir jafnréttisbaráttu hvers kyns, getur fyllt hvaða mann stolti.

Nægir þar að nefna að IBM hleypti af stað þjálfunarnámskeiðum fyrir konur, 1935.  Það réði fyrsta svarta starfsmanninn 1946, heilum 18 árum áður en lög um borgaraleg réttindi (Civil Rights Act 1964) í Bandaríkjunum voru samþykkt.

Fyrsta stefnubréf fyrirtækisins um jöfn tækifæri kynjanna var gefið út 1952 – heilu ári áður en Hæstiréttur Bandaríkjanna kvað upp hinn stefnumarkandi og vel þekkta dóm í  Brown vs. Board of Education.

Ginni Rometty

Árið 1953 þegar verið var að opna 2 fyrirtæki IBM í Suðurríkjum Bandaríkjanna, var sú ákvörðun fyrirtækisins gerð heyrinkunn að ekki myndi vera um aðskilið vinnuafl að ræða, þvert á óskir ríkisstjóra ríkjanna þar sem IBM var að opna fyrirtæki sín. Fyrir þá sem ekki lengur skilja hvað átt er með aðskildu vinnuafli þá er það hugtak hér notað yfir að svertingjar hafi þurft að vinna á sér afmörkuðum vinnusvæðum með sérinngöngudyrum, sér matsal, til þess að hvíti maðurinn þyrfti ekki að vinna með þeim né hafa neitt samneyti við þessa óæðri menn. IBM harðneitaði að verða við kröfum þess tíma.

IBM er líka eina fyrirtækið sem árið 2004 komst á lista yfir 10 bestu fyrirtækin sem væri góður vinnustaður fyrir útivinnandi mæður skv. Working Mother´s Magazine.

Tveir af 13 stjórnarmönnum IBM eru konur (sem virðist kannski lítið en fyrirtækið stendur sig þó t.a.m. mun betur en t.d. Facebook þar sem engin kona er í stjórn).

Í ljósi þessarar miklu jafnréttissögu fyrirtækisins er óskiljanlegt að fyrirtækið styðji áfram einkaklúbb á borð við Augusta National, sem eingöngu veitir karlmönnum aðild – eða m.ö.o. heimilar konum EKKI aðild og það á 21. öldinni!  Hvernig getur eitthvað jafnfallegt og the Masters og Augusta National verið með jafn ógeðfelldan og eitraðan undirtón, sem ójöfnuður og ójafnrétti er?

Af hverju lætur IBM það viðgangast að svona einkaklúbbur sem Augusta National er,  sýni forstjóra sínum það virðingaleysi að veita honum ekki félagsaðild, þegar öllum forstjórum fyrirtækisins á undan honum og öllum helstu styrktaraðilum klúbbsins, (en IBM er svo sannarlega meðal 3 stærstu styrktaraðila Augusta National) hefir verið veittur Græni Jakkinn (þ.e. félagsaðild að klúbbnum).

Forstjóra IBM, sem einum af 3 stærstu styrktaraðilum Augusta National er synjað um félagsaðild þar, þegar forstjórar hinna 2 stóru styrktaraðilanna Exxon og AT&T, sem eru karlmenn, hljóta félagsaðild. Forstjóra IBM er synjað um félagsaðild að Augusta National, sem allir forstjórar fyrirtækisins á undan henni hafa hlotið, einvörðungu á grundvelli kynferðis síns.

Hversu fyndið sem sumum karlrembum kann að finnast þetta – þá er þetta út frá öllum mannréttindalegum sjónarmiðum ekki ásættanlegt og því hefir Eileen Burbidge (hluthafi í Passion Capital – sem hefir verið viðloðandi hátækni-iðnaðinn á æðstu stigum í áratugi m.a. unnið fyrir Apple, Skype og Yahoo) farið af stað með undirskriftarsöfnun á netinu þar sem skorað er á IBM að hætta stuðningi við Augusta National. Hún þekkir af eigin raun hversu erfitt er að vera kona meðal æðstu yfirstjórnenda hátækni-iðnaðarfyrirtækis.

Nú er tækifæri til þess að sýna í verki stuðning við kvenréttindabaráttu 21. aldarinnar – ja, það er óþægilegt að standa í baráttu, miklu þægilegra að vera bara stikkfrí/r og bera bara „hlýjan hug“ til þeirra sem að breytingum standa… og fara kannski í kröfugöngu þegar veður er gott.  Það er óþægilegt að verða hugsanlega óvinsæl/l og koma sér í ónáð hjá hinum háu herrum Augusta National.  Betra að lumma sig í gegnum lífið með hugsunarháttinn „einhver annar – bara ekki ég.“  Það er í heimi slíks hugsunarháttar sem ójöfnuður þrífst!

Nú er tækifæri til að taka þátt, en láta ekki aðra standa að breytingum.  Golf 1 hvetur alla jafnréttissinnaða Íslendinga og þá helst þá sem stendur málefnið næst, íslenskar konur og kvenkylfinga til að skrifa undir undirskriftarsöfnunina HÉR: