Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 22. 2012 | 11:35

Skemmtilegt viðtal Feherty við Michelle Wie á föstudaginn sl. á Stöð 2 Sport – myndskeið

Flestir þeir sem fylgjast með golfi á Golf Channel eða nú Stöð 2 Sport kannast við Feherty. Hann tekur viðtöl við fræga kylfinga og meðal þeirra sem hafa verið í viðtali hjá honum eru Donald Trump, leikarinn Samuel Jackson og nú nýlega Michelle Wie.

Michelle Wie

Kylfingum líkar misvel við Feherty, en hann er mjög hreinn og beinn og lætur ýmislegt fjúka, sbr. að Ernie Els var ekki sáttur við umfjöllun Feherty um hann. Í viðtali sínu við Rickie Fowler sagði Feherty að sér finndist appelsínugult (liturinn sem Rickie er þekktur fyrir úti á velli) fari ekkert sérlega vel við bandarísku (og reyndar íslensku) fánalitina o.s.frv. o.s.frv.

Nú á föstudaginn var þáttur Feherty með Michelle Wie sýndur á Stöð 2 Sport.   Feherty heimsótti Wie á Stanford háskóla campusinn, en hún stundar eða réttara sagt stundaði nám við Stanford og við komumst að því að þessi drottning golfsins býr/bjó þar ekki í einbýli með þjóna á hverjum fingri heldur deilir/deildi hún íbúð með 6 öðrum, eins og oft tíðkast á háskólaárunum; enda sagðist Michelle Wie hafa viljað fá eðlilega háskólareynslu  beint í æð.  Hún sagði að námið hefði alltaf verið í 1. sæti hjá sér – golfið væri einungis ein af mörgum íþróttum sem hún hefði prófað sem krakki.

Michelle Wie útskrifaðist í sumar með gráðu í markaðsfræðum.  Hún er því m.a. alger snillingur í að nýta sér samfélagsmiðla á borð við Twitter og þeir sem „followa“ Michelle Wie sjá að hún er mjög dugleg að setja inn fréttir af sér þar fyrir aðdáendur sína.

Í viðtalinu við Feherty sagði Michelle m.a. að sig hlakkaði til að geta einbeitt sér algerlega að golfinu eftir námið, enn væri nokkur markmið sem hún hefði á LPGA, sem hún vildi ná. Það sem sig langaði m.a. til að gera í framtíðinni fyrir utan að spila golf væri að hanna föt.

Michelle Wie

Þau Feherty fóru m.a. á körfuboltaleik í Stanford því Feherty vildi sjá hvort Michelle Wie fengi einhverja stjörnumeðferð eða væri látin í friði.  Wie hefir sjálf sagt að hún félli algerlega inn í stúdentahópinn og fæstir könnuðust við hana, sem kylfinginn Wie; þeir sem gerðu það létu hana í friði. Við komumst að því að svo er – Wie og Feherty fengu að horfa á leikinn í friði.

Umfjöllun Feherty um Michelle Wie var mjög jákvæð og hann var heillaður m.a. af því hversu heilsteypt hún væri.

Sjá má myndskeið úr þætti Feherty með Michelle Wie með því að SMELLA HÉR: