Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 29. 2015 | 17:00

Sigur og tap hjá Gísla á 1. degi Jacques Leglise Trophy

Gísli Sveinbergsson úr Keili hefur lokið leik á fyrsta keppnisdeginum með úrvalsliði meginlands Evrópu gegn úrvalsliði Bretlands og Írlands í Jacques Leglise Trophy sem fram fer á Royal Dornoch vellinum í Skotlandi.

Staðan og úrslit leikja má sjá með því að SMELLA HÉR: 

Gísli tapaði naumlega 1/0 í morgun í fjórmenningnum þa sem hann lék með Tim Wilding frá Svíþjóð. Eftir hádegi lék Gísli gegn Calum Fyfe frá Skotlandi og þar sigraði Gísli nokkuð örugglega 3/2.

Úrvalslið Bretlands og Írlands er með 6 1/2 vinning gegn 5 1/2 vinningi úrvalsliðs meginlands Evrópu.
Gísli er fyrsti íslenski kylfingurinn sem keppir á þessu sögufræga móti en aðeins sterkustu áhugakylfingarnir í unglingaflokki eru valdir í þessi úrvalslið.

Í fjórmenning eru tveir kylfingar saman í liði þar sem þeir leika einum bolta til skiptis í holukeppni. Í tvímenningi mætast tveir kylfingar í holukeppni og sá sem vinnur fleiri holur á 18 holum stendur uppi sem sigurvegari.
Gísli er fyrsti íslenski kylfingurinn sem er valinn í þetta úrvalslið en margir af þekktustu kylfingum Evrópu hafa verið valdir í þessa keppni. Má þar nefna Rory McIlroy frá Norður-Írlandi og Sergio Garcia frá Spáni.
Mótið fór fyrst fram árið 1958 og er keppnin nefnd eftir Jacques Leglise sem var forsvarsmaður í frönsku golfhreyfingunni.

Texti: golf.is