Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 14. 2013 | 04:30

Sergio Garcia með ás og ljósku á pokanum í Thaílandi – myndskeið

Sergio Garcia sökkti töfraási eftir framúrskarandi hring á Thailand Golf Championship á Amata golfvellinum, í Chonburi á Thaílandi í gær, föstudaginn 13. desember 2013. 

Garcia náði draumahögginu á par-3 8. holunni í  Amata Spring Country Club og kláraði hringinn á glæsilegum 7 undir pari, 65 höggum og er samtals á 11 undir pari, 133 höggum (68 65) í hálfleik og efstur ásamt Justin Rose.  Garcia hélt því fram við fréttamenn að hann hafi alltaf vitað að boltinn ætti möguleika á að detta þó að mið hans hafi verið langt til hægri. 

Sjá má glæsilegt draumahögg Garcia í hápunktum 2. hrings Thaíland Golf Championship (1:28 mín) með því að SMELLA HÉR: 

Annað sem vakti athygli allra var kylfuberi Garcia en hann var með gullfallega ljósku á pokanum, sem hann faðmaði eftir ásinn eins og sjá má í myndskeiðinu hér að ofan. Eins gengu þau hönd í hönd eftir golfbrautum Amata klúbbsins. Menn voru að velta því fyrir sér hver hún væri nú eiginlega? Er þetta Katerina Boehm, austurísk leikkonam sem Garcia sást með á Nedbank Golf Challenge fyrir um viku síðan? Ekkert var gefið upp hver ljóshærði kaddý Garcia er.