Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 27. 2014 | 10:00

Sean Foley þjálfari Tiger biður fólk um að lesa ekki of mikið í hring Tiger upp á 79

Tiger Woods flýgur til Dubai í dag ásamt þjálfara sínum, Sean Foley, sem biður fólk um að lesa ekki of mikið í hring Tiger upp á 79 högg á Torrey Pines, þar sem hann hefir sigrað 8 sinum þ.á.m. Opna bandaríska 2008, fótbrotinn.

Gagnrýninni hefir rignt yfir Tiger eftir hringinn.  Þannig sagði Nick Faldo m.a. að sér fyndist Tiger „mjög ryðgaður“ og Brandel Chamblee, sem er einn helsti gagnrýnandi Tiger sagði að sveifla Tiger líktist sveiflu „55 ára manns.“  (Alltaf er nú allt jafn gáfulegt sem kemur út úr Chamblee! – Fæstir setja út á sveiflu Bernhard Langer sem vann 1. mótið á Champions Tour nú í ár og hann er 56 ára!).

Jhonattan Vegas sem var með Tiger í ráshóp 3. hringinn örlagaríka sagði: „Ég hef aldrei séð hann spila svona.“

Reyndar hafði ekki neinn gert það.  A.m.k. ekki á Torrey Pines.  Á síðasta ári sigraði Tiger þar með 4 höggum.

Á Opna breska á Muirfield var Tiger á 81 höggi. Veðrið þann daginn var hræðilegt. Veðrið á Torrey var frábært, sem gerði hrun Tiger undraverðara.

Síðan þetta að Tiger var með 2 skramba í röð og síðan 5 skolla. Röffið er þykkt í San Diego (þ.e. á Torrey Pines) kannski einum of þykkt, en sú staðreynd að hann náði engum fugli á par-5unum lýsti bara spilaforminu sem hann var í.

Aðeins yfirgolfkennarinn á Torrey, Michael Block var neðar en hann á 86 höggum.

Fólk fór hamförum á samfélagsmiðlunum.  En Sean Foley (sveifluþjálfari Tiger) er ekki við það að falla í panikk. „Þetta er bara 3 daga á löngu ári“ sagði Foley m.a. á Fox Sports.

„Mér líkar það sem ég sé til hans á æfingum, þannig að við höldum bara áfram vinnunni og sjáum hvert það leiðir okkur.“

Það er e.t.v. rétt að minnast þess að Tiger náði ekki niðurskurði á fyrsta móti sínu á síðasta ári …. og eftir flopp-ið í Abu Dhabi flaug hann til Torrey Pines og vann.

Kannski að hann snúi dæminu við í ár? Fljúgi til Mið-Austurlanda og sigri þar eftir svo hraklega niðurstöðu á fyrsta móti sínu í Bandaríkjunum í ár.