Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 27. 2019 | 12:00

Scott útilokar ekki Ólympíuþátttöku

Adam Scott útilokar ekki að hann taki þátt í Ólympíuleikunum 2020, þrátt fyrir að hafa upphaflega verið andsnúinn því að golf yrði ein af greinum leikanna að nýju eftir 112 ár.

Eftir sigur hans sl. sunnudag á Australian PGA batt hann endi á 4 ára eyðimerkurgöngu sigurlega séð og hann er nú í 13. sæti á heimslistanum.

Hinn 39 ára Scott var mjög gagnrýndur fyrir að taka ekki þátt í Ólympíuleikunum 2016, en þá gengu önnur dagskráratriði fyrir.

Eftir sigurinn á Royal Pines sl. sunnudag útilokar Scott ekki að spila á leikunum, sbr.:

Ég ætla mér bara að taka mér tímann minn og sjá til; ég meina, ég hef gert öllum ljóst að þetta sé ekki í forgangi hjá mér en ég útiloka það ekki. Maður verður alltaf að vera opinn fyrir öllu; ég vil bara ekki segja nei í einhverjum flýti eða byggja á tilfinningu. Ég veit að þetta verður vel heppnað mót í Japan vegna þess að Japanir elska golf.