Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 1. 2012 | 18:00

Saga Golfklúbbs Hellu í 60 ár – GHR í 60 ár (3. hluti af 12) – tekið saman af Ólafi Stolzenwald

Átján holu völlurinn og uppbygging hans  – Aðeins tveir 18 holu vellir á landinu komnir í spilun

Um 1983 hófst síðan uppbygging formlega á vellinum eins og hann er í dag.  Á landinu voru þá eingöngu tveir átján holu vellir, Grafarholt og Jaðarsvöllur. Sem dæmi var Hvaleyrin tólf holur og menn að skoða stækkunarmöguleika Leirunnar á þessum tímamótum.  Það var því ansi stórt skref að fara í stækkun vallar hjá litlum landsbyggðarklúbbi . Líklega voru flestir félagsmenn sáttir við níu holu völl en enn var það drifkraftur Hermanns að átján holu draumurinn yrði að veruleika.  Einnig var gengið frá leigusamningi sama ár við Landgræðslu ríkisins og Rangárvallahrepp.  Landgræðslan lagði til fræ og áburð um nokkura ára skeið og það má sjá á vallarstæðinu í dag að því var vel varið og Golfklúbburinn hefur lagt mikið til í landgræðslustarfi.    Einnig stóð Landgræðslan í girðingavinnu sem lokaði völlinn af norðan og austan megin vallarstæðis. Þarna fer völlurinn fyrst í breyttan níu holu golfvöll um 1983 og síðar í átjándu holu uppbyggingu með þrjár gamlar holur (flatir) af fyrsta velllinum á Strönd og fimmtán holur nýjar gerðar vestan og austan megin við Strandarsíkið.

GHR gekk í HSK á þessum tíma eða 1982 og þess má geta að vallargjald var 50 krónur um þetta leyti.

Fyrstu teikninguna af átján holu vellinum gerði Barry John Guttridge árið 1981, en hann var enskur golfkennari hér á landi á vegum Austurbakka og var með kennslu á Strandarvelli.  Fékk hann þá áhuga á að skoða með forráðamönnum klúbbsins fyrirhugaða legu vallarins og vildi fá að gera grófa teikningu af nýjum 18 holu velli. Hann var um eina viku á Ásmundastöðum og teiknaði fyrstu drögin á pappír úr hæsnafóðurspoka í eldhúsi eins klúbbfélaga GHR.  Frumteikningunni var breytt talsvert þegar völlurinn var lagður af félögum og það má segja að landið hafi mótað völlinn að mestu og gert hann að alvöru ,,inn í landi‘‘ LINKS velli.  Landfræðilegar aðstæður sem komu upp urðu til þess að hverfa þurfti frá fyrstu teikningum Bretans.

Nokkrir félagar komu að þessari stóru framkvæmd og stýrði Hermann því að mestu og Örn Hauksson, Jón Ögmundsson, Stefán Jónsson,  Sigursteinn Steindórsson, Haukur Baldvinsson og Garðar Jóhannsson sem lagði einnig til tæki og mannskap,   ásamt fleirum sem unnu við það að móta brautirnar með traktor og fyrrnefndum mosatætara. Það gekk misjafnlega og laus sandur bæði í síkinu og undir brautum tafði verkið.   Jarðvegur Strandarvallar er mjög sandblendinn og væntanlega eitthvað öskublandaður.  Völlurinn er því mjög fljótþornandi og fljótt tilbúinn til vorgolfs og öll síðari hirðing varð því mjög þægileg í alla staði.  Einnig fékk klúbburinn aðstoð frá nágrannanum Sigurði Haraldssyni á Kirkjubæ við grófslátt brauta í tvö sumur og fékk einnig lánaða sláttuvél hjá Graskögglaverksmiðjunni.  Byggðar voru tvær brýr yfir síkið sem gátu borið vélar og þung tæki sem breytti miklu í uppbyggingu og umhirðu vallarins.

Núverandi  átján holu Strandarvöllur var formlega tekinn í notkun 1986 á Jónsmessu en fyrsta meistaramótið á átján holu Strandarvelli var haldið árinu fyrr.  Fimm átján holu vellir voru í leik á landinu á þessum tímapunkti. Um svipað leyti fékk GOS – Golfklúbbur Selfoss aðstöðu í eitt sumar fyrir golfleik og mótahald, vegna vallarleysis.   Einnig var á þessum tíma hannað nýtt GHR merki klúbbsins en Valur Fannar gullsmiður teiknaði það og færði klúbbnum að gjöf (fyrsta merkið eða GH merkið teiknaði Rúdolf Stolzenwald).

Gamla lógó GHR, sem Rúdolf Stolzenwald teiknaði. Mynd: Í eigu Ólafs Stolzenwald.

Sjá má samantekt Ólafs Stolzenwald í heild með því að SMELLA HÉR: