Ragnheiður Jónsdóttir | september. 30. 2016 | 08:00

Ryder Cup taugastríð – DJ truflar Rory við æfingar

Nú er nýtt mál komið upp í Ryder bikars keppninni upprennandi.

Dustin Johnson (DJ), sem hefði átt að vera á æfingu með félögum sínum í bandaríska liðinu fór á púttæfingasvæði Hazeltine National í gær, þar sem evrópska liðið, allt klætt í gráu, var við æfingar, svona í stíl við veðrið, en í Hazeltine er kalt, vindasamt og skýjað.

Rory var á flötinni að æfa pútt með púttþjálfa sínum Phil Kenyon. Hann var að æfa löngu púttin.

Án þess að segja orð fór DJ á flötina henti niður nokkrum golfboltum …. og fór að pútta í sömu holu og Rory.

Ég veit ekki, en þetta er nú ekki sérlega vinsælt meðal kylfinga, sem eru að æfa sig á púttflöt að einhver annar „crash-i“ bara inn á svæðið og fari að slá í sömu holu.

Og svo þegar Rory ætlaði að taka nokkur önnur löng pútt þá sté DJ í púttlínu Rory.

Kaddý DJ reyndi að djóka til að létta á stemmningunni sem var nú við frostmark, en DJ tók örfá önnur pútt og staulaðist síðan í burtu.

Hvað á þetta að eiginlega að þýða?

Rory og afgangurinn af evrópska Ryder bikars liðinu kláraði púttæfingar sínar og fór síðan á æfingasvæðið til að slá.

Nú þetta þarf s.s. ekkert að þýða neitt – á túrnum (PGA Tour) eru strákarnir allir á sömu púttflöt og DJ gæti einfaldlega hafa gleymt sér – en að því gefnu að það eru nú einu sinni Ryder Cup vika þá gæti DJ hafa verið svolítið meira tillitssamur …. en það var greinilega ekki tilgangurinn með púttum hans þarna.

Þetta eiginlega er smá dæmi um Ryder Cup taugstríðið sem er byrjað og eykst með hverri mínútunni.