Ragnheiður Jónsdóttir | október. 1. 2012 | 11:00

Ryder Cup 2012: Kaymer hugsaði um Langer áður en hann púttaði úrslitapúttið

Martin Kaymer sagði eftir að Ryder bikarinn var í höfn að hann hefði hugsað um Bernhard Langer áður en hann setti niður púttið sem hélt bikarnum í Evrópu.

Langer missti 6 feta (1.8 metra) pútt á 18. flöt í Kiawah Island árið 1991, sem varð til þess að Ryder bikarinn fór til Bandaríkjamanna.

Kaymer átti nákvæmlega sama pútt þ.e. af sömu lengd eftir í viðureign sinni gegn Steve Stricker í Medinah en ólíkt læriföður sínum setti hann púttið niður.

„Ég hugsaði um hann, sérstaklega þegar ég gekk í kringum holuna til að lesa púttið frá hinni hliðinni,“ sagði Kaymer.

„Það var fótspor á línunni minni (í tilviki Langer var það takkafar), en það var ekki svo slæmt. Ég hugsaði með mér, allt í lagi, þetta gerist ekki aftur, þetta gerist ekki aftur og ef ég á að vera hreinskilinn hugsaði ég aldrei um að ég myndi missa það.“

„Ég átti ekkert val – ég bara varð að setja niður. Ég var ekkert sérstaklega stressaður. Ég hafði stjórn á mér vegna þess að ég vissi nákvæmlega hvað ég yrði að gera.  En ef þið spyrjið mig nú hvernig púttið fór, hvernig það rúllaði, hef ég ekki hugmynd – get ekki munað það.“

„Þegar það datt var ég yfir mig hamingjusamur og það er nokkuð sem ég mun líklega muna það sem eftir er ævinnar og vonandi get ég sagt barnabörnunum frá því dag einn.“

Fyrirliðinn José María Olazábal kom til Kaymer á 16. holu og sagði að leikur hans væri lífsnauðsynlegur þ.e. ef halda ætti lífi í voninni um að hreppa Ryder-inn.

„Hann sagði við mig: „Við þörfnumst stigsins frá þér og mér er nákvæmlega hvernig þú gerir það – skilaðu því bara inn.“

„Mér líkaði þetta. Hann er blátt áfram – það er þannig sem við Þjóðverjar erum.“

Það sem gerði þetta enn sætara var að Kaymer var látinn hvíla í 1 leik á föstudeginum og á laugardeginum spilaði hann alls ekki neitt.

„Þetta var mjög erfitt – maður vill sanna að maður geti gert betur en ég gerði á föstudeginum.“

„Ég talaði við Bernhard (í Chicago fyrir leikinn). Ég sms-aði hann föstudagskvöldið og spurði hann hvort við gætum hittst á laugardeginum.“

„Ég sagði að ég væri ekki með þann innblástur sem ég ætti að vera með, hélt ég og hann hefir alltaf verið aðalfyrirmyndin mín.“

„Hann er alltaf þarna þegar ég þarfnast hans og það er sjaldgæft að hafa einhvern eins og hann, sem hægt er að leita ráða hjá þegar maður þarfnast þess. En sá sem veitti loks innblásturinn var [Ian] Poulter í gær. Hann hefir verið frábær fyrir liðið – frábært val hjá Olazábal. Hann ætti að fá sæti í Ryder Cup keppninni að eilífu.“

Heimild: Sky Sports