Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 13. 2013 | 18:00

Rose fær lífstíðarkeppnisrétt á Evrópumótaröðinni

Justin Rose fékk í gær heiðurslífstíðarkeppnisrétt á Evrópumótaröðinni í viðurkenningaskyni á frábærum sigri hans á Opna bandaríska risamótinu s.l. júní.

Rose sem hafði betur gegn Phil Mickelson og Jason Day og sigraði á Merion golfklúbbnum og vann þannig fyrsta risamótstitil sinn fékk þessa sérstöku heiðursviðurkenningu úr hendi framkvæmdastjóra Evrópumótaraðarinnar, George O’Grady á blaðamannafundi fyrir DP World Tour Championship, sem hefst á morgun í Dubaí.

„Þetta er virkilega ótrúlegur heiður,“ sagði Rose m.a. sem er sem stendur nr. 2 á peningalista Evrópumótaraðarinnar og keppir um að verða krýndur nr. 1 á peningalistanum í 2. sinn á ferlinum.

„Fyrir strák sem hóf feril sinn með því að komast ekki í gegnum niðurskurð í 21 skipti, þá skiptir þetta miklu máli. Og öll þessi vegferð hefði ekki verið möguleg nema vegna mikillar vinnu Evrópumótaraðarinnar.“

„Það er frábært að vera aftur hér í Dubaí og það er frábært að keppa um 1. sætið á peningalista Evrópumótaraðarinnar. Eins og ég sagði þá hefir þetta svo sannarlega mikla þýðingu fyrir mig.“

„Þetta hefir verið frábært ferðalag. Það eru svo margir, margir frábærir kylfingar sem hafa gert svo mikið fyrir evrópskt golf og sem hafa hlotið þennan heiður, þannig að það væri yndislegt fyrir mig að gera það sama.“

„Það er mikið af frábæru golfi framundan hjá mér, vona ég og mikið af frábæru golfi framundan á Evrópumótaröðinni hjá mér.  Þannig að ég hlakka til að standa undir þessum heiðri.“

O´Grady hlóð lofi á Rose, sem sigrað hefir 6 sinnum á Evrópumótaröðinni frá því að hann kom fyrst á sjónarsviðið á Opna breska 1998, þar sem hann vann silfurmedalíuna, 18 ára ungur (Hún er veitt besta áhugamanni, sem þátt tekur í mótinu).