Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 12. 2013 | 13:45

Rory vill aldrei aftur á lögmannsstofu

Tvöfaldi risamótsmeistarinn Rory McIlroy hefir látið frá sér fara að hann vilji aldrei aftur sjá innviði lögmannsstofa aftur.

Rory sneri sér aftur að keppnisgolfi og kemur til með að verja titil sinn á lokamóti Evrópumótaraðarinnar DP World Tour Championship á Jumeriah Estates golfvellinum, í þessari viku en mótið hefst n.k. fimmtudag.

Hann hefir ekki sigrað í nokkru móti frá því í þessu í Dubaí á síðasta ári, en þá var hann í hörkuspilaformi fékk m.a. 5 fugla á lokaholurnar og vann Justin Rose og varð í 1. sæti peningalista beggja vegna Atlantsála, aðeins 2. á eftir Luke Donald til þess að takast það!

Á s.l. 12 mánuðum hefir líf Rory utan vallar verið tilefni margra forsíðufréttanna m.a. vegna margítrekaðra sögusagna um að hann og kærasta hans Caroline Wozniacki séu skilin að skiptum en síðast og ekki síst vegna ýmissa málaferla sem hann hefir staðið í.

Rory stofnaði nú nýlega sitt eigið umboðsfyrirtæki Rory McIlroy Incorporated sem stendur í málaferlum við fyrra  umboðsfyrirtæki Rory, Horizon Sports Management.  Aðalmeðferð í málinu fer fram í Dublin High Court á næsta ári í vikunum eftir Ryder Cup.

Og svo skrítin sem málin eru stundum þá verður Rory nú að stóla á trúverðugleika fyrrum umboðsmanns síns á Horizon Sports, Conor Ridge, í máli sem höfðað hefir verið í Kaliforníu gegn Rory af fyrrum styrktaraðila hans, Oakley.

Oakley hefir höfðað mál bæði gegn McIlroy og Nike Golf vegna meintra samningsrofa Rory við fyrirtækið.

„Ég hef verið á fleiri lögmannsstofum og séð fleiri lögmenn á þessu ári en á allri ævi minni,“ sagði Rory.

„Það er ekki nokkuð sem ég vil ganga í gegnum aftur og ég ætla að sjá svo um að svo verði ekki aftur.“

„Sem kylfingur vill maður hafa hugann frjálsann eins mikið og hægt er og það er erfitt þegar svona mikið er um að vera; í fyrsta lagi vill maður ekki að þetta sé að gerast og í annan stað finnst manni að þetta ætti ekki að eiga sér stað.

„Þetta hefir verið truflun sem ég hef þurft að fást við alveg eins og sumir strákanna í kringum mig.“

„En þetta er augljóslega nokkuð sem ég vildi ekki hafa í lífi mínu.“

Rory keppir í Dubai, heldur síðan til Ástralíu þar sem hann keppir í Australian Open í Sydney og fer þaðan beinustu leið til Los Angeles þar sem hann keppir í móti Tiger Woods: World Challenge í Thousand Oaks.

Nú eftir þetta ár þar sem Rory hefir farið úr 1. sæti heimslistans í 6. sætið segist hann hafa betri skilning á öllu sem Tiger hafi þurft og þarf að nokkru enn að fást við.

„Stundum verður maður bara að segja „nei“ og setja sjálfan sig í fyrsta sætið og segja „nei“ og það þarf að gerast til þess að halda upp stiginu á leik mínum,“ sagði Rory loks.

„Þetta er nokkuð sem Tiger sagði mér á síðasta ári. Hann sagði, þú verður að muna hvað þú átt hér (á golfvellinum) og setja það í fyrsta sæti […]“