Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 5. 2013 | 08:00

Rory þykir leitt að hafa hætt í Honda mótinu

„Ég bara brást við og ákvörðunin var tekin á staðnum,“ sagði Rory McIlroy í viðtali við  Sports Illustrated, um ákvörðun sína að hætta við titilvörn sína í miðju Honda Classic mótinu.

„Það sem ég hefði átt að gera er að droppa boltanum (eftir að Rory setti hann út í vatn), reyna að ná 5 (þ.e. pari) og berjast á seinni 9, jafnvel þó útkoman hefði verið 85.“

„Það sem ég gerði var ekki gott fyrir mótið, ekki gott fyrir krakkana og áhangendurna, sem voru að fylgjast með mér – þetta var ekki rétt af mér.“

Aðspurður um nýja golfútbúnaðinn frá Nike og hvort honum sé um að kenna sagði Rory: „Það tók smá tíma að venjast drævernum og boltanum, en ég var búin að æfa hjá Nike vikum saman fyrir upphaf ársins og leið vel með allan útbúnaðinn. Vandinn er að ég lyfti kylfunni of mikið í baksveiflunni og droppa henni of mikið í niðursveiflunni.“

Rory sagðist munu verða með  á WGC Cadillac Championship í Miami, en það mót hefst n.k. fimmtudag þ.e. ekki á morgun heldur hinn.