Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 11. 2013 | 09:00

Rory stofnuninni komið á laggirnar – til stuðnings góðgerðarsamtökum í þágu barna

Rory McIlroy  hefir komið á laggirnar Rory stofnuninni „The Rory Foundation“ sem hefir að markmiði að hjálpa þurfandi börnum í heiminum.  Fyrsta átak stofnunarinnar er „6 poka átakið“ (ens.: 6 Bags Project ) og var tilkynnt um það í gær í Holywood, Co. Down, Norður-Írlandi – þar sem Rory fæddist.

„Þegar ég var yngri fórnuðu foreldrar mínir öllu til þess að ég gæti spilað leikinn sem ég elska,“ sagði sigurvegari á stigalista Evrópumótaraðarinnar. „Að hafa þennan stuðning fjölskyldunnar varð til þess að ég gat eltst við drauma mína. En ég veit að það eru ekki öll börn svo heppin. Tilgangur Rory stofnunarinnar er að styðja við bakið á góðgerðarsamtökum, stórum sem smáum,  sem vinna í þágu barna um allan heim og hjálpa börnum.“

„6 poka átakið“ er fyrsta fjáröflunarverkefni The Rory Foundation. Á sérhverjum golfpoka Rory fyrstu 6 mótin á árinu sem hann spilar í mun vera nafn og lógó góðgerðarsamtaka sem vinna í þágu barna. Meðan á mótinu stendur fer fram uppboð á poka Rory í gegnum www.roryfoundation.com og allur peningurinn sem safnast mun renna til viðkomandi góðgerðarsamtala.Markmiðið er að hver góðgerðarsamtök séu helst (í þeim tilvikum sem það er mögulegt) virk á þeim stað þar sem mótið fer fram.

Fyrstu góðgerðarsamtökin, hvers nafn og lógó verður á golfpoka Rory í Abu Dhabi eru samtök sem starfandi eru í heimalandi Rory – þ.e. sjóður krabbameinssjúkra barna á Norður-Írlandi (ens.: The Northern Ireland Cancer Fund for Children (NICFC).

Gerry McIlroy, faðir Rory, sem er einn af 4 stofnfélögum The Rory Foundation sagði: “Ég og eiginkona mín Rosie erum mjög stolt af því sem Rory hefir afrekað á og utan golfvallarins. Þessi stofnun er fyrir Rory; okkur finnst þetta vera eðlileg framvinda og þegar allt kemur til alls snýst þetta aðallega um að gefa tilbaka.“

Búið er að ákveða hvaða 5 góðgerðarsamtök í þágu barna njóta góðs af 5 pokum Rory  – aðeins er eftir að ákveða hvaða góðgerðarsamtök njóta góðs af 6. pokanum þ.e. þeim sem Rory verður með á The Masters risamótinu. (INNSKOT: Líklega er sá poki mest virði í augum ríkra safnara, sem koma til með að bjóða í pokann).

(1) Abu Dhabi HSBC Championship (17. – 20.  janúar – Northern Ireland Cancer Fund for Children
(2) WGC -Accenture Match Play Championship (20. – 24. febrúar): Boys & Girls Clubs of Tucson
(3) Honda Classic (28. febrúar – 3. mars): Child Protection Team of the Palm Beaches
(4) WGC-Cadillac Championship (7. – 10. mars): First Tee Miami-Dade Amateur Golf Association
(5) Shell Houston Open: (25.-31. mars): Chinquapin School
(6) The Masters (11.-14. april): Verður tilkynnt síðar.

„6 poka átakið“ er það fyrsta í röð nýrra fjáraflana sem The Rory Foundation mun standa fyrir árið 2013.  Eins og Rory sjálfur sagði: „Ég átti æsku, frábæra æsku og ef The Rory Foundation getur aðstoðað einu barni við að ná betri kjörum í lífinu, þá er markmiðinu náð.“