Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 18. 2016 | 08:30

Rory og Monty meðal þeirra örlátustu

Sunday Times birti í gær (17. apríl 2016)  lista yfir það fræga fólk (ens.: celebrities) sem eru hvað örlátast að gefa til góðgerðarmála á Bretlandseyjum.

Meðal topp-10 eru þrír íþróttamenn og eru tveir þeirra kylfingar þ.e.  Rory McIlroy og Colin Montgomerie (Monty).

Þriðji íþróttamaðurinn er fótboltagoðsögn Manchester United og Real Madrid, David Beckham, sem er í 3. sæti og gefur meira en framangreindir kylfingar til samans.

Sá sem er á toppi listans er söngvarinn Elton John en hann gaf £26.8milljónir (rúma 5 milljarða íslenskra króna) til góðgerðarmála.

Rory gaf  rúma £1milljón (u.þ.b. 176 milljónir íslenskra króna) og er nr. 8 á listanum yfir þá örlátustu. Hann varði fé sínu þ.e.  £780,000 til eigin styrktarstofnunar, sem styrkir ýmis góðgerðarverkefni og  £250,000 til Mencap. Styrktarstofnun Rory, The Rory Foundation, hefir aðallega að markmiði að veita bágstöddum börnum styrki. Hann hefir einnig hjálpað til við uppbyggingu á krabbameinslæknastöð fyrir börn í Newcastle.

Hinn kylfingurinn á listanum er fyrrum Ryder Cup fyrirliðinn Colin Montgomerie en hann stofnaði sjóð í minningu móður sinnar, sem hefir frá stofnun aflað £4.5milljóna til krabbameins hjúkrunarstöðva.

Listinn var látinn í té af Charities Aid Foundation (CAF), sem aðstoðar ríkt fólk að gefa til þeirra málefna sem því eru hugleikinn.

Þeir sem eru ríkir og gefa til góðgerðarmálefna veita miklu meira en fjárhagslegan styrk. Þegar stjörnur á borð við Coldplay og One Direction allt til Rory McIlroy og David Beckham gefa til góðgerðarmála þá senda þær út mikilvæg skilaboð um þau jákvæðu áhrif sem við öllum getum haft með því að styrkja verðug málefni, sem eru okkur hugleikin,“ sagði John Low, framkvæmdastjóri CAF.

Topp-10 listi fræga fólksins, sem gaf til góðgerðarmála 2015:

1) Elton John (£26.8m)

2) JK Rowling (£10.3m)

3) David Beckham (£5.0m)

4) Martin Lewis (£2.5m)

5) Coldplay (£1.7m)

6) Ringo Starr (£1.6m)

7) Jamie Oliver (£1.4m)

8) Rory McIlroy (£1.0m)

9) Colin Montgomerie (£0.9m)

10) One Direction (£0.8m)