Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 12. 2013 | 18:45

Rory með klaufamistök á Masters

Alltof mikið var um klaufavillur í leik Rory McIlroy á 1. hring Masters í gær þar sem hann var á sléttu pari sem skilaði honum í 33. sætið, sem hann deilir ásamt fjöldamörgum öðrum.

Hann fékk fugla á 2. holuna á Augusta National og fylgdi því eftir með öðrum fugli á Juniper, sem er par-3, 6. holan, þar sem Jamie Donaldson, sem sigraði á Irish Open fór holu í höggi 3 tímum fyrr.  En síðan fékk Rory skolla, sem hann tók aftur með fugli á 9. holu.

Allt fór niður á við á og eftir 10. holu, en hann fékk 4 skolla og „aðeins 2 fugla“ á seinni 9.

„Mér finnst að þetta gæti hafa verið betra og mér fannst samt ég spila vel og gefa sjálfum mér tækifæri,“ sagði Rory.

„Ég gerði bara klaufamistök – nokkur þrípútt á seinni 9. Ég var með nóg af fuglum en þarf  bara að hætta að gera þessi mistök þá er ég fínn.“

„Ég var kominn á 2 undir pari og allt leit vel út. Það var saga dagsins að í hvert skipti sem mér fór að ganga vel lét ég það allt frá mér. Á þessum velli er það ekki hægt. Mér finnst eins og leikurinn minn sé á sínum stað, ég meina ég var að slá vel.“

„Svo lengi sem ég gef sjálfum mér fuglafæri og nýti nokkur þeirra þá get ég vonandi farið út á morgun (í dag) og náð góðu skori.“

„Ég er að ná þessu. Ég held að ég sé að slá boltann jafnvel og áður. Þetta snýst bara um að nýta tækifærin og takmarka mistökin.“