Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 18. 2013 | 14:00

Rory heillum horfinn – var á 79 á 1. hring Opna breska! – Svarar Faldo fullum hálsi

Rory átti erfiða byrjun á Opna breska í dag.

Hann lauk 1. hring á 8 yfir pari, 79 höggum og virðist algerlega heillum horfinn.

Á hringnum fékk hann 2 fugla, 8 pör, 6 skolla og 2 skramba.  Þetta lítur meira út eins og gott skor hjá meðalskussa en nr. 2 á heimslistanum!

Margir hafa orðið til að gagnrýna aumingja Rory á þessum erfiðistímum.  Johnny Miller sagði að Caroline Wozniacki hefði skemmt leik Rory – Nick Faldo sagði að Rory ætti bara að einbeita sér meira að æfingum.

Og nú í vikunni svaraði Rory, Nick Faldo fullum hálsi.

„Hvað er eiginlega málið?“ spurði Rory. „Ég hef ekki átt bestu 6 mánuði ferilsins, en það er allt í lagi. Það er allt í lagi með mig. Þannig að þetta hefir engin áhrif á mig. Ég er á góðum stað. Og eins og ég sagði ég vinn mikið. Mér finnst eins og ég sé að vinna í öllum réttu hlutnum. Og fyrr en varir mun allt snúast og ég fer að lyfta bikurum aftur.“

Það lítur ekki út fyrir að það muni gerast, a.m.k. ekki á Muirfield, á Opna breska haldi hann áfram að spila eins og hann gerði í dag.

Faldo stakk upp á s.l. mánudag að Rory „ætti að vera mættur kl. 9 í klúbbinn, slá bolta allan daginn og fara ekki fyrr en kl. 5, einbeita sér að golfi og engu öðru.“

Í gær svaraði Rory fyrir sig: „Ég var mættur á æfingasvæðið kl. 6:15 og fór úr ræktinni kl. 6:15 um kvöldið – ég átti 12 stunda vinnudag, samanborið við 8 tímanna hans (Faldo).  „Nick ætti að vita hversu erfiður leikurinn er stundum. Hann hefir verið í þeirri stöðu sjálfur. Hann ætti að vita hversu mikið við allir leggjum á okkur.“

Kannski Rory sé bara að ofgera sig í öllum æfingunum?  En líklega hefir Rory rétt fyrir sér, hann verður búinn að snúa við blaðinu fyrr en varir og óþarfi að vera að höggva í hann rétt fyrir risamót, eins og Nick Faldo gerði með sínum föðurlegu umvöndunum. Og Faldo, breski fánaberinn og afmæliskylfingur dagsins, var sjálfur á 79 höggum á fyrsta hring Opna breska í dag!  Lítur út fyrir að hvorugur komist gegnum niðurskurð eins og staðan er núna!!!