Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 10. 2014 | 08:00

Rory góður við aðdáendur sína

Rory McIlroy er að spila vel á PGA Championship risamótinu, en hann hefir m.a. verið í forystu 2. og 3. dag.

En ekki nóg með það hann er líka góður við aðdáendur sína og er að vinna sér hylli allra fyrir það.

Timothy Campbell fylgdist ásamt börnum sínum Jonah og Maggie með seinni 9 á 1. deginum á Valhalla.  Það sem fjölskyldunni kom síðan á óvart var að Rory var á sömu bensínstöð og þau að taka bensín á bíl sinn eftir hringinn.  Hann hafði ekkert á móti því að láta taka mynd af sér með áhangendum sínum og gefa öllum eiginhandaráritun.

Frásögn Campbell af atvikinu var eitthvað á þessa leið:

„(Eftir hringinn) náði konan mín í okkur þrjú og við ókum í átt að Louisville eftir Shelbyville vegi og stoppuðum til þess að taka bensín og fá okkur snarl.  Þegar við stoppuðum hjá the Thornton’s sem er rétt hjá Valhalla, tók ég eftir manni sem var í sama bol og Rory hafði verið í, í dag og varð að líta aftur og aftur þar til ég loks meðtók að þetta var raunverulega Rory McIlroy.

Hann hafði farið út út PGA silfurlitaða Mercedes-Benz jeppanum sínum þar sem hann ætlaði sjálfur að setja bensín á bílinn, en fór aftur inn þegar farsími hans hringdi.  Þegar ég fór úr bílnum okkar fór kylfusveinn Rory úr bensínum en Rory sat í ökumannssætinu og kláraði símtal sitt.  Ég rétti Maggie aðgangsmiðann minn og penna og sagði við hana „nú er tækifæri þitt“ og hún var sko ekki að kasta því á glæ.

Maggie spurði kylfusveininn hvort hún mætti tala við Rory og hann sagði „auðvitað.“ Hún veifaði síðan til Rory og hann brosti og benti henni að koma til sín.  Hún sagði. „Hæ, ég er Maggie, hvernig hefur þú það?  Rory sagði „Ó, ég er svolítið þreyttur, en líður vel.  Ég átti góðan dag í dag (66) sem gæti þó hafa verið betri.“  (Þetta var eftir 1. daginn þegar Lee Westwood og 2 aðrir leiddu á 65 höggum).

Rory áritaði aðgöngumiðann með penna, sem hann var með í jeppanum. Maggie óskaði honum góðs gengis og á þeirri stundu fór ég yfir til þeirra með iPhone myndavélina mína. Ég sagði halló og spurði hvort ég mætti taka mynd af honum og Maggie. Hann brosti og sagði: „Auðvitað, það væri frábært,“ með sínum sjarmerandi írska hreim.

Ég tók nokkrar myndir og óskaði honum góðs gengis.

Campbell var mjög hrifinn af því hvernig Rory kom fram við þau og lauk bloggi sínu á því að segja:

„Hann er #1 kylfingur í heiminum og það sem er mikilvægara ungur ágætisnáungi. Þetta tvennt fer ekki alltaf saman. Hann gæti svo auðveldlega hafa sniðgengið okkur og við myndum hafa skilið það – eftir allt saman þá er hann að reyna að sigra í risamóti. En hann sniðgekk okkur ekki vegna þess að hann hefur karakter og hann skilur mikilvægi og ábyrgðina sem fylgir því að vera „sendiherra“ golfleiksins. Hann gaf okkur aðeins mínútu af tíma sínum til þess að gera þetta að upplifun sem við munum aldrei gleyma.

Maðurinn er einn af bestu „dræverum“ í golfinu og „drævar“ (þ.e. keyrir) sinn eiginn bíl og var þarna að taka bensín eins og hver annar.  Hann keyrir jafnvel á öfugri hlið götunnar miðað við hvernig hann lærði að keyra í Norður-Írlandi.  Frægðin hefir ekki stigið honum til höfuðs og ég vona að hún geri það aldrei. Ef honum tekst að halda báðum fótum á jörðinni þá er erfitt að spá fyrir um hversu langt hann muni ná.“

Að manni læðist sá grunur að þetta sé allt saman eitt allsherjar PR-dæmi; sett til höfuðs atvikinu þegar Rory neitaði að veita litlum áhanganda eiginhandaráritun eftir sigur sinn á Opna breska.  Ég meina er líklegt að hitta Rory á næstu bensínstöð í námunda við mótsstað? Er hann ekki með nóg af hjálparkokkum til þess að sjá um svona hluti fyrir sig?  Hér má sjá umfjöllun Golf 1 þegar hann neitaði að veita öðrum áhanganda sínum eiginhandaráritun SMELLIÐ HÉR: