Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 28. 2013 | 07:00

Rory ætlar sér að stíga í fótspor Jack Nicklaus

Í dag hefst Honda Classic mótið á PGA mótaröðinni bandarísku, á golfvelli Palm Beach Gardens í Flórída.

Heimsins besti, Rory McIlroy, sagði að völlurinn og aðstæður í Palm Beach Gardens hentuðu leik sínum.

Það er Rory, 23 ára, sem á titil að verja í mótinu. Hann lyfti verðlaunabikarnum á Honda Classic í fyrra og vonast til þess að verða 2. aðeins á eftir Jack Nicklaus til þess að lyfta honum tvö ár í röð.

„Vonandi verð ég sá fyrsti frá Jack til þess að ná þessu í þessari viku,“ hefir Sky Sports News eftir McIlroy.

„Gengið byggist mikið á aðstæðum, það getur orðið ansi hvasst hér og þá verður völlurinn erfiður og getur verið vandasamur en það lítur ekki út fyrir að það verði þannig þessa viku.“

Rory hefir ekkert gengið allt of vel það sem af er árinu; hann komst ekki í gegnum niðurskurð á Abu Dhabi HSBC Golf Championship í janúar s.l. og eftir langt mánaðarfrí, sem hann tók sér til að venjast nýju Nike kylfunum og búist var við honum ferskum og endurnærðum tapaði hann fyrir Shane Lowry í 1. umferð WGC-Accenture Match Play Championship þ.e. á heimsmótinu í holukeppni.

E.t.v. ætti hann að spara stóru orðin og forðast samlíkingu við goðsögn sem Jack Nicklaus – en það verður spennandi að sjá hvort honum tekst ætlunarverkið að sigra á Honda Classic í þessari viku – og vera þá í sporum Nicklaus, þ.e. að því leyti að hafa sigrað á mótinu tvö ár í röð!