Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 24. 2013 | 16:45

Rory á möguleika á að spila fyrir Bretland á Ólympíuleikunum 2016

Á golffjölmiðlum fór sú frétt eins og eldur í sinu í dag að R&A hefði kveðið upp úrskurð um að Rory McIlroy YRÐI að spila fyrir Írland.

Hér er einfaldlega um það að ræða að orð framkvæmdastjóra R&A hafa verið oftúlkuð.

Staðreyndin er sú að Rory á enn val um hvort hann keppir fyrir Bretland á Ólympíuleikunum 2016 ef hann vill þrátt fyrir komment R&A að hann væri e.t.v. aðeins hæfur til að spila fyrir Íra.

Framkvæmdastjóri R&A Peter Dawson sagði að „það væri í gildi Ólympíureglugerð“ þar sem fram kæmi að Rory gæti aðeins spilað fyrir Írland vegna þess að hann hefði spilað í tveimur heimsbikarskeppnum fyrir Íra.

Ólympíunefndin hefir hins vegar vitnað til reglu þar sem segir að ef 3 ár hafa liðið frá því að keppandi keppti síðast fyrir tiltekna þjóð þá sé hann ekki skuldbundinn lengur til að leika fyrir þá þjóð.

Vandinn sem Rory (og GMac) eru í stafar af því að þeir eru báðir fæddir á Norður-Írlandi og geta því valið hvort þeir spila fyrir Bretland eða Írland á Ólympíuleikunum.

Rory sagði að svo gæti farið að hann tæki ekki þátt til þess að þurfa ekki að taka þessa erfiðu ákvörðun fyrir hvora þjóðina hann keppti.

Heimild: BBC