Lydia Ko
Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 17. 2013 | 09:30

Rolex-heimslistinn: Ko í 22. sæti!

Nýsjálenska golfstirnið Lydia Ko er bara 15 ára og er enn áhugamaður. Engu að síður er hún í 22. sæti á Rolex-heimslista bestu kvenatvinnukylfinga í heiminum. Það kemur til út af því að Lydía hefir tekið þátt í atvinnumótum og staðið sig frábærlega m.a. sigraði hún 10. febrúar s.l. á  ISPS Handa New Zealand Women’s Open, sem er mót á Evrópumótaröð kvenna, LET og hefir verið ofarlega á skortöflum ýmissa annarra stórmóta.

Til þess að setja árangur Ko í eitthvert samhengi þá ber fyrst að nefna að hún er sem stendur hærra rönkuð á Rolex-heimslistanum en átrúnaðargoð hennar sjálfrar Lexi Thompson (sem er í 23. sæti). Eins er Ko hærri á Rolex-heimslistanum en t.a.m. Beatriz Recari (25. sæti); Sandra Gal (42. sætið); Morgan Pressel (54. sætið), Michelle Wie (91. sæti) og Natalie Gulbis (94. sætið).  Reyndar eru aðeins 21 af bestu atvinnukvenkylfingum heims, sem þykja standa hinni 15 ára  Ko framar, sem stendur …. og Ko er ekki einu sinni orðin atvinnukylfingur …. enn….

Nr. 1 á lista yfir bestu áhugakvenkylfinga heims (Lydia Ko) er eini áhugamaðurinn sem fær að taka þátt á Lotte LPGA mótinu, sem hefst á morgun á Hawaii. Þátttakendur eru 144. Þetta er 8. LPGA mótið sem Lydia tekur þátt í og 17 atvinnumannamótið hennar. Hún fer út kl. 10:10 að staðartíma (kl. 20:10 að okkar tíma á morgun) með Ariyu Jutanugarn (frá Thaílandi sem sigraði í Q-school LET 2013) og Hyo Joo Kim, frá Suður-Kóreu.