Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 4. 2022 | 18:00

Ragnhildur keppir á 1. stigi úrtökumótsins fyrir LET

Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, keppir á 1. stigi úrtökumótsins fyrir LET Evrópumótaröðina – sem er í efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu í kvennaflokki.

Keppt er á 1. stigi úrtökumótsins dagana 10.-13. desember og er leikið á tveimur völlum á Real Golf La Manga Club á Spáni. Úrtökumótið fyrir LET Evrópumótaröðina hefur farið fram á Norður- og Suður völlunum á La Manga.

Gera má ráð fyrir að keppendur verði um 150 á 1. stigi úrtökumótsins og komast 75 efstu áfram inn á lokaúrtökumótið.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Ragnhildur reynir fyrir sér á úrtökumótinu fyrir LET Evrópumótaröðina. Hún reyndi fyrir sér á 1. stigi úrtökumótsins fyrir LPGA mótaröðina í Bandaríkjunum fyrr á þessu ári – en náði ekki að komast áfram inn á 2. stig úrtökumótsins.

Keppt er á tveimur stöðum á fyrra stigi úrtökumótsins fyrir LET Evrópumótaröðina. Dagana 11.-14. október s.l. var keppt í Asíu þar sem að 9 keppendur komust áfram inn á lokaúrtökumótið sem fram fer á La Manga dagana 17.-21. desember. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, er með keppnisrétt á lokaúrtökumótið og er hún skráð til leiks á því móti.

Á lokaúrtökumótinu má gera ráð fyrir að keppendur verði um 130 en í fyrra fengu 23 efstu keppendurnir keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni. Gera má ráð fyrir að svipaður fjöldi fái keppnisrétt eftir lokaúrtökumótið 2022.

Texti og mynd: GSÍ