Ragnar Már Garðarsson, GKG, sigraði glæsilega á 2. móti Unglingamótaraðar Arion banka. Hann var sá eini sem var á samtals skori undir pari eftir 2 keppnisdaga! Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | september. 13. 2012 | 15:25

Ragnar Már sigraði á Duke of York mótinu!!!!!

Ragnar Már Garðarsson, GKG, efnilegasti kylfingur Íslands 2012 og stigameistari í piltaflokki á Unglingamótaröð Arion banka sigraði nú rétt í þessu á The Duke of York Young Champions Trophy.

Íslendingar hafa fram að þessu aðeins einu sinni sigrað í mótinu en það var þegar Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, sigraði 2010.

Andrew prins, Duke of York og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, 2010.

Ragnar Már kom í hús á 72 höggum í dag á golfvelli Royal Troon Golf Club í Ayshire í Skotlandi.  Skor hans er einkar glæsilegt í ljósi þess hversu erfiðar veðuraðstæður voru á vellinum en þar var ekta íslenskt slagveður, kalt, hvasst og rigning.

Ragnar spilaði fyrri 9 á sléttu pari, var á 36 höggum og sama seinni 9 þó skorkortið hans væri aðeins skrautlegra þar, en hann fékk 3 fugla, skolla og skramba.

Kötju Pogacar, frá Slóveníu sem búin er að vera í efstu sætum undanfarna tvo daga, gekk illa í dag en hún var á 79 höggum. Sama er að segja um Englendinginn Max Orrin, en hann var á 77 höggum.

Samtals voru þau Katja, Max og Ragnar Már á samtals 225 höggum, hvert í lok spils á 54 holum; Katja (72 74 79); Max (71 77 77) og Ragnar Már (76 77 72) og því þurfti að koma til bráðabana milli þeirra.

Í bráðabananum stóð Ragnar Már uppi sem sigurvegari!!!!!   Segja má að Ragnar Már hafi staðið sig framúrskarandi í eldraun keppnispressunnar og mótið dýrmæt reynsla og vegarnesti í framtíðina.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK. Mynd: gsimyndir.net

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, bætti sig líka í dag en hún var í 32. sæti fyrir daginn í dag. Hún hækkaði sig upp um 5 sæti og deildi 27. sætinu með 2 öðrum: Hollendingnum Lars Von Meijel og Finnanum Juhana Kukkonen. Samtals spilaði Guðrún Brá á 241 höggi (83 78 80).

Glæsileg frammistaða hjá Ragnari Má og Guðrúnu Brá – Innilega til hamingju bæði tvö!!!

Til þess að sjá úrslitin í Duke of York Young Champions Trophy  SMELLIÐ HÉR: