Ragnar Már Garðarsson, GKG, sigraði glæsilega á 2. móti Unglingamótaraðar Arion banka. Hann var sá eini sem var á samtals skori undir pari eftir 2 keppnisdaga! Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | september. 11. 2012 | 17:30

Ragnar Már og Guðrún Brá taka þátt í Duke of York – Ragnar Már í 8. sæti eftir 1. dag

Ragnar Már Garðarsson, GKG efnilegasti kylfingur Íslands 2012 og Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, stigameistari GSÍ í stúlknaflokki taka þátt á The Duke of York Young Champions Trophy mótinu, sem stendur dagana 11. -13. september 2012.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK. Mynd: gsimyndir.net

Að þessu sinni fer mótið fram á mjög svo sögufrægum slóðum í Skotlandi í Royal Troon Golf Club í Ayshire.

Ragnar Már átti frábæran hring í dag – lék á 5 yfir pari, 76 höggum.  Það sem var einkar glæsilegt voru fyrri 9 hjá Ragnari en þá spilaði Ragnar á 31 höggi, fékk örn (á par-5 4. brautina) og 3 fugla (á 6.; 7. og 9. braut).  Seinni 9 gengu ekki eins vel þar fékk Ragnar Már aðeins 1 fugl en jafnframt 4 skolla, 1 skramba og 1 snjókerlingu þ.e. á erfiðustu braut Royal Troon par-4, 11. brautina, sem reynst hefir mörgum erfiður ljár í þúfu. Ragnar er í 8. sæti, sem hann deilir með Linneu Strom frá Svíþjóð.

Guðrún Brá var á 11 yfir pari, 83 höggum, en hún var með 6 skolla, 1 þrefaldan skolla og 1 skramba. Eftir 1. mótsdag er Guðrún Brá í 37. sæti, sem hún deilir með 4 öðrum kylfingum.

Golf 1 óskar þeim Ragnari Má og Guðrúnu Brá góðs gengis á morgun!

Til þess að sjá stöðuna eftir 1. dag á  The Duke of York Young Champions Trophy SMELLIÐ HÉR: