Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 27. 2014 | 09:00

Ráð Butch Harmon til Tiger: „Farðu á æfingasvæðið!“

Tiger Woods og Butch Harmon munu ekki starfa saman en miklar vangaveltur hafa verið yfir hvort af nýju  samstarfi þeirra kynni að verða eftir að Tiger sleit samstarfi sínu við sveifluþjálfara sinn Sean Foley.

Þetta kemur beint frá Butch en hann sagði við fréttamann Golf Channel, Rex Hoggard, að hann vildi ekki vera þjálfari Tiger á ný og Tiger myndi aldrei biðja hann. Og já, svona í framhjáhlaupi, Tiger þarfnast ekki þjálfara, að mati Butch Harmon.

„Nei, ég myndi ekki taka það starf að mér og hann (Tiger) mun ekki hringja og biðja mig um það,“ sagði Harmon, aðspurður hvort hann tæki að sér starf þjálfara Tiger. „Mér finnst hann ekki þarfnast sveifluþjálfara. Ef ég væri að ráðleggja Tiger myndi ég segja við hann: „Þú ert besti kylfingur sem lifað hefir, farðu bara á æfingasvæðið og farðu að slá!“

Með Butch Harmon sem þjálfara sinn vann Tiger 8 risamót og 31 sinnum á PGA Tour á árunum 1997-2004.

Með Sean Foley sem þjálfara sinn 2010-2014 vann Tiger ekkert risamót og 8 sinnum á PGA Tour.