Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 11. 2012 | 19:30

Q-school LET: Tinna komin áfram á lokaúrtökumót Evrópumótaraðar kvenna!

Tinna Jóhannsdóttir, GK, stóð sig frábærlega á undanúrtökumóti Evrópumótaraðar kvenna (ens.: Ladies Euroepean Tour, skammst. LET) !  Hún lauk keppni fyrr í dag á Norðurvelli La Manga, í Murcia á Spáni á samtals +6 yfir pari (74 71 71 78) og er komin áfram á lokaúrtökumót Evrópumótaraðarinnar!

Tinna lenti í 13. sæti ásamt Ayako Ishikawa frá Japan.  Í efsta sæti var enska stúlkan Hannah Burke (sjá mynd hér að neðan) og sigraði hún í B-hóp með nokkrum yfirburðum, á skori upp á -11 undir pari samtals.

Tinna fékk 3 skolla og 1 fugl á fyrri helmingi Norðurvallar og 1 skramba og 3 skolla á seinni helmingnum, eitthvað spennufall þar, því öruggt var að Tinna væri komin áfram þarna, þ.e. áfram í lokaúrtökumótið sem fram fer dagana 15.-19. janúar n.k. á sömu völlum, þ.e. Suður- og Norðurvöllum La Manga. Spilaðar verða 90 holur þ.e. 5 hringir

Árangur Tinnu er glæsilegur í ljósi þess að hún er meðal bestu 1/3 hluta þeirra sem upphaflega tóku þátt þ.e. 211 keppenda, en af þeim eru aðeins 70, sem komast áfram í lokaúrtökumótið. Til hamingju Tinna!

Til þess að sjá úrslit á Norðurvelli La Manga í undanúrtökumóti LET, smellið HÉR: