Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 17. 2013 | 20:30

Poulter: „Þetta er ógeðslegt, vansæmandi og ég hef enga skýringu á þessu!“

Ian Poulter var í uppnámi eftir fyrstu tvo og síðustu leiki sína í þessari viku í Búlgaríu en hann, sem talinn var sigurstranglegastur fyrirfram er dottinn úr Volvo World Match Play Championship.

Þegar ljóst var að dvöl hans í mótinu yrði ekki lengri sparaði Poulter ekki stóru orðin:

„Það er engin afsökun fyrir að spila svona s.l. tvo daga“ sagði hann í viðtali við Sky Sports. „Þetta er ógeðslegt, vansæmandi og ég hef enga skýringu á þessu.“

Ian Poulter skraultegur

Ian Poulter skraultegur

Talið var fyrirfram að Poulter myndi gersamlega blómstra á Þrakíuklettavellinum í Búlgaríu …. en hann varð að láta í minni pokann strax á fyrsta degi gegn Thongchai Jaidee frá Thaílandi 3&2 .

„Einbeitingin var einfaldlega ekki til staðar og þess vegna gerir maður andleg mistök þegar heilinn er ekki notaður,“ bætti Poulter við, en hann ásamt Graeme McDowell voru einu leikmennirnir á topp-15 á heimslistanum, sem þátt tóku í mótinu. „Þetta er gersamlega óásættanlegt“ hamaðist Poulter áfram.

„Ég er grautfúll,“ útskýrði Poulter „og ég mun verða fúll áfram í nokkrar klukkustundir en síðan sný ég aftur til Englands og mun (reyna að) sigra á Wentworth.“