Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 13. 2014 | 06:30

Poulter hefði ekki átt að taka Matsuyama fyrir á Twitter

„Það er aðeins til einn Ian Poulter,“ segir í Ryder Cup slagorði. En svo virðist sem þeir séu á stundum tveir!

Annars vegar er það Poulter, stjarnan, sem laðar að áhorfendur hvar sem hann spilar, er skemmtilegur í viðtölum, er sá sem allir líta upp til vegna þess að saga hans er saga velgengni, á stundum á golfvellinum, en svo sannarlega í viðskiptum þar sem hann hefir komið ár sinni vel fyrir borð t.a.m. með  sölu Poulter golffatnaðar.

Og svo er það Poulterinn sem verður sér til skammar.  Föstudagurinn fyrir viku í Flórída er e.t.v. eitt slíkt dæmi þar sem Poulter fór á Twitter og tók pirring sinn þar út á ungu japönsku, rísandi golfstjörnunni Hideki Matsuyama eftir að sá hafði stundað „jarðvegsgröft“ á 13 flöt Bláa Skrímslisins, sem Poulter var ekki par hrifinn af.  Hann kallaði Matsuyama „hálfvita“ og það sem hann gerði „ógeðslegt“ á miðli þar sem 1,6 milljónir manna hanga á hverju orða hans.

Hér er ekkert verið að afsaka Matsuyama; það sem hann gerði var augljóslega rangt. Golf yrði íþrótt anarkisma ef allir leikmenn myndu höggva part úr golfvöllum í hvert sinn sem þeir misstu stjórn á skapi sínu.  En  jafn reynslumikill leikmaður eins og Poulter ætti ekki að fara út um víðan völl og vera með tilkynningar sem rata í heimspressuna gegn einhverjum, sem hefir ekki sömu tækifæri að svara fyrir sig. Það að PGA Tour dómari kom við sögu í málinu þýðir væntanlega að Matsuyama hafði þegar fengið refsingu við hæfi.

Matsuyama sá eftir mistökum sínum á laugardeginum, en var þá þegar í hringiðu fjölmiðlasirkuss; sem vel hefði getað eyðilagt leikinn fyrir jafn ungan og óreyndan kylfing, en gerði það sem betur fer ekki; Matsuyama lék jafnvel betur en Poulter á 3. degi þegar þeir voru paraðir saman – var á 71 höggi meðan Poulter var á 73 höggum!!!

Poulter hefði átt að tala einslega við Matsuyama e.t.v. í búningsherbergjunum eftir hringinn eða ef hann endilega vildi vekja athygli annarra PGA Tour leikamnna á málinu, ræða málið við þá líka,  en ekki draga ungan, óreyndan kylfing út í athygli heimsfjölmiðla. Spurningin er: Myndi Poulter hafa brugðist eins við ef það hefðu verið Tiger eða Lee Westwood sem pirruðust og hefðu höggvið í flötina líkt og Matsuyama gerði? Ég held ekki!

Ef Poulter hefir ætlað að reyna að nota tækifærið og spila betur vegna þessa þá gekk það ekkert upp; hann lauk keppni T-52 og átti ömurlegan lokahring upp á 78 högg!

Poulter virtist ferlega frústreraður þarna á föstudeginum og svo virðist sem Matsuyama hafi bara verið í skotlínunni og tilvalinn blóraböggull.

Það að Matsuyama hafði höggvið upp úr flötinni truflaði þar að auki ekkert leik Poulter – er hann einhver sjálfskipaður dómari? Einhver sem ber að láta umheiminn vita af mistökum annarra, þegar hann er ekkert gallalaus eins og hann er sjálfur fyrstur til að viðurkenna?

Hvergi hefir þar að auki komið fram að Poulter hafi beðið Matsuyama afsökunar á því að kalla hann hálfvita og athafnir hans „ógeðslegar“ Svona gífuryrði eru ekkert sæmandi manni eins og Poulter, eiga ekkert heima á golfvelli og eru til lítillar eftirbreytni fyrir (unga) kylfinga.  Viljum við það að ungu kylfingarnir okkar eða hver annar sem lítur á Poulter sem fyrirmynd finni réttlætingu í honum til þess að uppnefna menn sem eru með athafnir á golfvellinum, sem þeim líkar ekki við?  PGA dómari var kominn í málið og hann hefir eflaust fundið refsingu sem hæfði glæp Matsuyama!

Það sem Poulter gerði eftir mistök Matsuyama, var ekkert síður hálvitalegt og ógeðslegt svo notuð séu hans eiginn orð. Eftir stendur að Poulter hefði átt að láta það vera að taka Matsuyama fyrir á Twitter, því hvað myndi gerast ef allir á topp-100 á heimslistanum eða sjálfskipaðir besserwisserar myndu taka sig til að skrifa í félagsmiðla um það sem færi úrskeiðis á golfvellinum, um allt sem pirraði þá og láta fylgja nokkur vel valin uppnefni á samkylfingum sínum?

Það er eitthvað ógeðfellt við að kylfingur á borð við Poulter sé að upphefja sjálfan sig með því að vekja athygli á mistökum annarra og það ekkert fyrir einum eða tveimur heldur milljónum golfáhangenda. Það sem Poulter gerði á ekkert heima í golfi fremur en hin óumdeildu mistök Matsuyama, sem hann hefir margbeðist afsökunar á.