Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 8. 2014 | 11:30

Pöddur á Mastersmatseðli Adam Scott?

Hefð er fyrir því að sigurvegari síðasta árs á Masters risamótinu bjóði samkeppendum sínum árið eftir í sérstakan Masters Dinner, þar sem oftar en ekki er eitthvað sérstakt gómsæti frá heimalöndum viðkomandi á matseðlinum.

Áherslan er því á Ástralíu þetta árið, því sigurvegari síðasta árs er eins og allir muna eftir Ástralinn Adam Scott.  Menn voru mikið að spá í hvað þeir fengju nú í matinn hjá Scott, kannski kengúrukjöt eða krókódíla?

Mörgum brá  í brún að sjá að á matseðli Adam Scott væru „bugs“ eða pöddur nánar tiltekið ‘Moreton Bay Bugs’, sem Scott lét fljúga sérstaklega inn til Augusta í tilefni af Masters Dinnernum, sem einmitt fer fram í kvöld.

Pöddur er það nú ekki of langt gengið? Menn voru farnir að líta saknaðaraugum aftur á ostaborgarana og jarðaberjatertuna, sem þótti svo fábrotin og Tiger bauð upp á árið eftir að hann sigraði 1998.  Nú tekur Tiger ekki einu sinni þátt.

Mörgum létti þegar upplýstist að Moreton Bay Bugs, er nafn á sælgætis flathausa humri, sem veiðist undan ströndum Ástralíu, þannig að Adam býður m.a. upp á humar í kvöld!