Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 14. 2018 | 22:00

Pitkänen: „Verðum að byggja á velgengninni“

Á blaðamannafundi á vegum GSÍ í dag, þar sem var farið yfir það sem framundan væri í golfinu í sumar fór Jussi Pitkänen, afreksstjóri GSÍ, m.a. yfir það helsta í íslensku golfi á síðasta ári og það sem af er árs.

Svo sem allir vita hefir golf á Íslandi aldrei verið eins blómlegt og á sl. ári. Jussi benti m.a. á að við ættum tvo kvenkylfinga, sem spila á bestu mótaröðum heims, Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur og LPGA og Valdísi Þóru Jónsdóttur á LET og að Birgir Leifur Hafþórsson hefði sigrað á Áskorendamótaröð Evrópu.

Þetta var samhljóða því sem forseti GSÍ, Haukur Örn Birgisson sagði í ávarpi sínu á undan Jussi,  en hann sagði m.a. að Birgir Leifur væri eins og gott rauðvín… yrði sífellt betri.

Við vonumst til að geta haldið velgengninni gangandi. Ef við sem lágmark getum viðhaldið þátttöku atvinnumannanna okkar í fremstu röð þá vonandi fáum við fleiri til að spila. Einnig verðum við að byggja á velgengni áhugamanna okkar.“ sagði Jussi m.a.

Jussi benti og á í því sambandi að við yrðum að setja okkur markmið og stefna hátt … að eiga kylfinga meðal 50 bestu í heiminum.

Skammtímamarkmiðið er þó að íslenskir kylfingar eða a.m.k. einn íslenskur kylfingur taki þátt á Ólympíuleikunum í Tokýo 2020 og í því sambandi minntist Jussi á að íslenskir kylfingar munu eiga fulltrúa, bæði pilt og stúlku  á Ólympíuleikum ungmenna í Buenos Aires í Argentínu (Buenos Aires Youth Olympic Games) nú í sumar.

Fyrstu mót á mótaröðum GSÍ fara af stað í þessum mánuði; Eimskipsmótaröðin (Egils Gull mótið ) heldur fram þar sem frá var horfið í haust og hefst næstu helgi upp á Skaga; Íslandsbankamótaröðin fer fram á Hellu (hjá GHR), 25.-27. maí og á Áskorendamótaröðinni verða spilaðar bæði 9 og 18 holur þann 26. maí 2018 í Hveragerði hjá GHG.

Í aðalfréttaglugga: Jussi Pitkänen, afreksstjóri GSÍ. Mynd og texti: Golf1.is