Phil Mickelson
Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 27. 2011 | 08:30

Phil Mickelson – kylfingur, sem vert er að fylgjast með árið 2012

Phil Mickelson er uppáhaldskylfingur margra… ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Sagt er að enginn sé spámaður í eiginn heimalandi en það virðist ekki eiga við um Phil, hann og Bones, kylfuberinn hans, eru gífurlega vinsælir í Bandaríkjunum. Á heimasíðu PGA Tour er greinarröð þar sem sagt er frá „100 kylfingum, sem vert er að fylgjast með árið 2012.“  Auðvitað er Phil einn af kylfingunum, sem þar eru taldir…. það er alltaf gaman að fylgjast með honum.

Phil, sem er örvhentur og oft uppnefndur „Lefty“ fæddist 16. júní 1970 og verður því 42 ára á næsta ári. Næsta ár, 2012, kemur til með að verða Phil eftirminnilegt því þá hlýtur hann inngöngu í frægðarhöll kylfinga, nánar tiltekið mánudaginn í maí á The Players Championship.

Phil er nú í 14. sæti á heimslistanum og verður spennandi að sjá hvaða breytingar verða á þeirri röðun á árinu 2012. Hápunktur Phil á þessu ári er líklegast þegar hann vann Shell Houston Open, en fyrir þann sigur hlaut hann m.a. $ 1.062.000,- í verðlaunafé.  Hér má sjá myndskeið með Phil á: SHELL HOUSTON OPEN

Vinsældir Phil byggjast m.a. á því að hann gerir sér grein fyrir hversu heppinn hann er í lífinu og hann gefur rausnarlega tilbaka til þeirra sem orðið hafa undir og mega sín minna. Honum er sérlega annt um börn og menntun þeirra og hér má sjá myndskeið af því þegar hann og kona hans, Amy gáfu börnum, sem voru að byrja í skóla, ný föt og skóladót s.l. haust. Smellið hér: GÓÐGERÐARSTARFSEMI PHIL MICKELSON 

Loks er alltaf fróðlegt að lesa hvað félagarnir á PGA Tour hafa að segja um Phil. Það er ekkert nema gott, sbr. eftirfarandi umsagnir:

Chris DiMarco: Phil er klárlega einn af bestu kylfingunum. Hann hefir haft mikið að hugsa um seinustu ár m.a. vegna veikinda eiginkonu sinnar og móður, sem og að hann er nú á fimmtugsaldri. Það er þá sem oft verða breytingar á hlutum sem eru manni mikilvægir og það er ekki slæmt. Í tilviki Phil, þá hefir hann náð svo miklum árangri en löngunin er enn þarna að gera enn betur.

Arron Oberholser: Hann hefir aldrei staðið yfir höggi sem honum líkaði ekki eða gat ekki hitt. Hann er töfrum líkastur á stundum.

Craig Perks: Hinn 41 árs gamli Mickelson sem sigrað hefir 39 sinnum á PGA Tour, hefir orðið að einhverju í líkingu við læriföður fyrir yngri kynslóð kylfinga. Þegar hann spilar æfingahringi við Dustin Johnson, Keegan Bradley og aðra slíka hefir það jákvæð áhrif á golfleik þeirra. Einnig löngun hans til þess að spila við Jim Furyk í Forsetabikarnum (á árinu sem er að líða) sýnir hversu óeigingjarn hann er. Goðsögnin um Phil mun vaxa. Spurningin er hvort sigrunum fjölgi í sama hlutfalli?

Heimild: PGA Tour