Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 19. 2016 | 12:00

PGA: Willett mun spila á PGA Tour

Danny Willett hefir ákveðið að hann muni nú framvegis aðallega spila á PGA Tour eftir Masters sigurinn á Augusta fyrr í mánuðnum.

Þetta er fyrsta risamót ársins og jafnframt fyrsta risamótið, sem Willett hefir sigrað í.

Hluti sigurlauna Willett, sem er 28 ára,  er að hann hlýtur 5 ára keppnisrétt á PGA Tour, en síðasta keppnistímabil Willett á PGA Tour mun verða 2020-2021, takist honum ekki að hala inn nokkra sigra á því tímabili og framlengja þar með dvöl sína á mótaröðinni enn meir.

Á þessu keppnistímabili hefir Willett 3 sinnum verið meðal 5 efstu í þeim 5 mótum sem hann hefir spilað í, á PGA Tour.

Hann sigraði einnig nú í vor á Dubai Desert Classic á Evrópumótaröðinni og er sem stendur nr. 9 á heimlistanum.