Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 17. 2022 | 18:00

PGA: Will Zalatoris sigraði á FedEx St. Jude Championship

Það var Will (William Patrick) Zalatoris, sem stóð uppi sem sigurvegari á FedEx St. Jude Championship, en mótið fór fram dagana 11.-14. ágúst sl. í Memphis, Tennessee.

Zalatoris þurfti að hafa fyrir sigrinum, en eftir hefðbundinn leik var hann efstur og jafn Austurríkismanninum Sepp Straka.

Báðir léku þeir á samtals 15 undir pari, 265 höggum; Zalatoris (71 63 65 66) og Straka (64 66 68 67).

Það varð því að koma til bráðabana milli þeirra og þar hafði Zalatoris betur á 3. holu bráðabanans, þ.e. par-3 11. holu TPC Southwind, en áður hafði allt verið í járnum þegar par-4 18. brautin var spiluð tvívegis.

Will Zalatoris er fæddur 16. ágúst 1996 og því 26 ára. Hann var í Wake Forest líkt og Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir. Zalatoris gerðist atvinnumaður í golfi árið 2018. Þetta er fyrsti sigur hans á PGA Tour en fyrir átti hann 1 sigur á Korn Ferry Tour (á TPC Colorado Championship 4. júlí 2020). Hann er búinn að vera við það að sigra í allt ár og vakti einkum athygli á sér í ár, fyrir frækilega frammistöðu í risamótum ársins en í PGA Championship varð hann í 2. sæti og Opna bandaríska T-2. Zalatoris var valinn nýliði ársins á PGA Tour 2021.

Sjá má lokastöðuna á FedEx St. Jude Championship með því að SMELLA HÉR: